Fótbolti

Myndin sem segir kannski mörg orð um af hverju Messi er að hætta með landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi í úrslitaleiknum á móti Síle.
Lionel Messi í úrslitaleiknum á móti Síle. Vísir/Getty
Lionel Messi segist vera hættur að spila með argentínska landsliðinu en þetta tilkynnti besti fótboltamaður heims eftir að hafa tapað úrslitaleik á stórmótið þriðja sumarið í röð.

Messi talað um að hafa reynt allt til þess að vinna með argentínska landsliðinu og að það sé bara ekki hægt.

Liðið tapaði úrslitaleik HM 2014, úrslitaleik Ameríkukeppninnar 2015 og úrslitaleik hundrað ára afmælismóts Ameríkukeppninnar 2016. Fyrsti leikurinn tapaðist í framlengingu en síðustu tveir í vítakeppni.

Argentínska liðið var búið að spila mjög vel á mótinu með Lionel Messi í fararbroddi en líkt og áður þá "fraus" liðið í úrslitaleiknum. Messi sjálfur klikkaði síðan illa á vítaspyrnu í vítakeppninni.

Lionel Messi hefur unnið 28 titla með Barcelona en engan með aðalliði argentínska landsliðsins. Hann er með frábæra leikmenn sér við hlið hjá Barca en það eru líka frábærir leikmenn í argentínska landsliðinu.

Af ummælum Messi að dæma þá finnst honum örugglega að með Argentínu sé hann með allt liðið á herðunum. Hann talaði þannig um að hann hafi gert allt sem hann gat og þá hafa argentínskir fjölmiðlar gagnrýnt hann fyrir að sýna ekki sömu snilldartakta með landsliðinu og hann gerir með Börsungum.

Lionel Messi eru engu að síður orðinn markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi. Hann er búinn að skora 55 landsliðsmörk sem er frábær árangur.

Kannski ætla Argentínumenn of mikið að láta Messi bara að sjá um þetta. Ein flottasta fótboltamynd ársins bendir í það minnsta til þess.

Það var áhugaljósmyndarinn Claudio Rodríguez sem náði henni úr stúkunni á MetLife Stadium. Hann er fimm barna faðir og harður stuðningsmaður argentínska landsliðið.

Hann trúði því ekki hversu einangraður Lionel Messi var í úrslitaleiknum og fór að einbeita sér að taka myndir af Messi.

náði síðan mynd af Lionel Messi þar sem hann var með boltann umkringdur níu leikmönnum Síle. Það er enginn annar leikmaður argentínska landsliðsins með á myndinni.

Á myndinni vantar því bara tvo leikmenn Síle og annar þeirra er markvörður liðsins sem var pottþétt með augum á Messi á þeirri stundu sem myndin var tekin.

Grant Wahl, blaðamaður Sports Illustrated, skrifaði grein um þessa flottu mynd og sagði frá ljósmyndaranum Claudio Rodríguez sem lýsti hvernig myndin hans kom til. Það má finna þetta hér fyrir neðan og þar má einnig sjá þessa mögnuðu mynd.


Tengdar fréttir

Sögulegt draumamark hjá Messi

Lionel Messi bætti markamet argentínska landsliðsins með draumamarki í nótt er Argentína valtaði yfir Bandaríkin í undanúrslitum Copa America.

Messi búinn að jafna markamet Batistuta

Lionel Messi skoraði sitt 54. mark fyrir argentínska landsliðið í 4-1 sigri á Venesúela í 8-liða úrslitum Copa América, Suður-Ameríkukeppninnar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×