Lífið

Myndi vilja starfa sem jarðfræðingur á Íslandi

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hann Tom Odell er nokkuð liðtækur píanóleikari og mun vafalaust setjast við það á tónleikunum í Hörpunni í kvöld.
Hann Tom Odell er nokkuð liðtækur píanóleikari og mun vafalaust setjast við það á tónleikunum í Hörpunni í kvöld. Vísir/Getty
Tom Odell settist niður og svaraði nokkrum spurningum Fréttablaðsins um tónleika í Hörpunni í kvöld. Hann elskar auðvitað land og þjóð og væri til í að taka upp plötu hér á landi í framtíðinni.



Hvers vegna ákvaðstu að koma aftur til Íslands?


Mér fannst ákaflega ánægjulegt að spila á hérna síðast þegar ég kom. Landið er ótrúlega fallegt og mig langaði til að skoða það eilítið meira. Harpa er gríðarlega fallegur tónleikastaður og allir sem ég hitti voru rosalega vinalegir!

Geturðu sagt mér aðeins frá nýjustu plötunni þinni, The Wrong Crowd? Hver var innblásturinn að þessari plötu og er hún öðruvísi en þín fyrri verk?

Ég myndi segja að þessi plata sé skref fram á við frá því sem ég var að gera á fyrstu plötunni minni. Textarnir rista eilítið dýpra og hún er þéttari tónlistarlega séð. Ég tók hana upp með hljómsveitinni minni sem ég hef spilað með í mörg ár. Ég myndi segja að þroski minn hafi gefið mér innblásturinn.

Ef þú yrðir að sinna einhverju öðru starfi en tónlistarmennskunni hvert yrði það þá og hvers vegna myndir þú vilja sinna því?

Ég elska útivist – platan mín er að mörgu leyti innblásin af þeirri tilfinningu að vilja sleppa frá ys og þys stórborgarinnar og komast í faðm náttúrunnar, þannig að ég myndi segja að ég myndi vilja vinna utandyra – kannski sem jarðfræðingur á Íslandi. Ef þið viljið fá mig, þá tek ég því! En annars væri ég alveg til í að vera blómasali, ég elska blóm.

Hverju getum við búist við frá þér á tónleikunum í kvöld?

Muntu spila eigið efni einungis eða verða einhver tökulög á dagskránni? Ég og bandið hendum oft í ábreiður hér og þar en við verðum mest að taka lög af plötunum mínum tveimur. Hljómsveitin sem ég spila með hefur verið í mótun í mörg ár og við höfum aldrei hljómað betur en nú. Ég stefni alltaf að því að taka hlustandann með mér í ferðalag. Mætið bara, þetta verður rosalegt sjónarspil.

Hlustar þú eitthvað á íslenska tónlist?

Já, algjörlega, ég elska til dæmis Björk, svona eins og margir aðrir tónlistarmenn. Hún er ótrúlegur innblástur. Síðan er þarna frábær ferskur piltur sem heitir Mummi sem ætlar að hita upp í kvöld. Svo er það John Grant – ég veit að hann er ekki Íslendingur, en ég held að hann búi á landinu, ég er að minnsta kosti mjög mikill aðdáandi hans.

Að lokum verður að spyrja að þessu: hvernig finnst þér Ísland?

Ég eyddi örfáum dögum á Íslandi síðast þegar ég kom en það var alveg nóg til að fá mig til að elska landið. Ég vona að ég verði enn þá meira ástfanginn af landinu í þetta sinn. Ég er mjög öfundsjúkur yfir því að þið búið á svona fallegri eyju! Kannski mun ég einn daginn taka upp plötu á Íslandi, það væri alveg frábært.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. ágúst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×