Lífið

Moses Hightower fær gullplötu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Piltarnir eru sáttir með gullplötuna sem þeir fengu fyrir plötuna Önnur Mósebók.
Piltarnir eru sáttir með gullplötuna sem þeir fengu fyrir plötuna Önnur Mósebók. Mynd/Haraldur Leví
„Þetta kom ekkert svakalega á óvart, hún hefur verið að malla hægt og rólega undanfarið ár í sölu en við erum mjög ánægðir þetta,“ segir Andri Ólafsson, bassaleikari hljómsveitarinnar Moses Hightower.

Hljómsveitin fékk afhenta gullplötu fyrir sölu á sinni annarri breiðskífu, sem ber titilinn Önnur Mósebók, en gullplata er afhent fyrir sölu á fimm þúsund eintökum.

Hljómsveitin eru um þessar mundir að smíða nýja plötu. „Við tókum upp grunna að nýrri plötu í janúar. Við eigum töluvert eftir,“ segir Andri. Sveitin gerir ráð fyrir að klára upptökurnar í mars þegar gítarleikari sveitarinnar, Daníel Böðvarsson, kemur til landsins en hann er búsettur í Berlín.

„Draumaplanið er að gefa út plötuna um mitt sumar eða síðla sumars.“ Andri segir sumarblæ vera yfir hluta plötunnar. „Þetta er ekkert eintómt danspartí en það er bjart yfir á köflum.“

Sveitin gerir ekkert endilega ráð fyrir að nýja platan verði mjög frábrugðin fyrri plötum. „Það er enn svo mikið eftir að við vitum ekki alveg hvernig þetta fer. Við erum ekkert að reyna að rembast við eitthvert nýtt konsept,“ bætir Andri við.

Platan verður á íslensku líkt og fyrri tvær plöturnar en textagerðin er enn skammt á veg komin.

Hljómsveitin stefnir á tónleikahald hér á landi í mars. „Það verður eitthvað um að vera í mars en annars mjög lítið það sem eftir er af ári.“ Allir meðlimir sveitarinnar eru einnig önnum kafnir í öðrum verkefnum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×