Innlent

Mörg rannsóknaskip í Reykjavíkurhöfn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Rannsóknaskipum hér við land hefur fjölgað verulega síðustu ár. Um 40 til 50 skip hafa komið á hverju ári undanfarið.
Rannsóknaskipum hér við land hefur fjölgað verulega síðustu ár. Um 40 til 50 skip hafa komið á hverju ári undanfarið. vísir/hanna
Nokkur fjöldi stórra, erlendra rannsóknaskipa kemur við í Reykjavíkurhöfn þessa dagana. Bandarísku skipin Neil Armstrong og Ocean Victory voru við Granda í gær. Þá voru spænska rannsóknaskipið Sarmiento de Gamboa og hið þýska Maria S. Merian einnig í höfn.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir skipin fleiri nú en gengur og gerist. Um fjögur til fimm skip hafi verið hér síðustu daga, það sé mjög óvenjulegt. „Síðustu ár hefur rannsóknaskipum verið að fjölga. Þetta hafa verið um fjörutíu skip á ári sem koma hingað,“ segir Gísli.

Hann segir sérstaklega óvenjulegt að svo mörg séu hér á sama tíma og segir flest skipin stoppa hér fyrir þjónustu, meðal annars til að fylla á tankinn. „Reykjavík er mjög góð höfn að því leyti að öll þjónusta sem þarf er fyrir hendi,“ segir Gísli.

„Neil Armstrong er nýtt rannsóknaskip Bandaríkjamanna og hefur heimahöfn í Woods Hole og er mikið notað af Hafrannsóknastofnuninni í Woods Hole, sem er á austurströnd Bandaríkjanna,“ segir Héðinn Valdimarsson hjá Hafrannsóknastofnun.

Héðinn segir skipið vera í Reykjavík til þess að taka um borð bæði vísindamenn og rannsóknatæki, „sem halda munu í sjórannsóknir og straummælingar suður af Grænlandi,“ segir Héðinn, en olíubíll var að dæla á skipið þegar Fréttablaðið átti leið hjá.

„Nýlega var hér í höfn Discovery frá Southampton-hafrannsóknastofnuninni, sem verður líklega á Reykjaneshrygg, en bæði þessi skip [Discovery og Neil Armstrong] verða á næstunni að vinna að rannsóknaverkefni sem nefnt er OSNAP,“ segir Héðinn. Hann segir verkefnið, OSNAP, snúast um rannsóknir á lóðréttri straumhringrás í Norðvestur-Atlantshafi, bæði á miklu dýpi og nærri yfirborðinu.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir að algengt sé að rannsóknaskip komi við hér á landi á leið sinni norður fyrir Ísland, meðal annars til Grænlands.

„Rannsóknaskip koma gjarnan við hérna á leið norður eða til Grænlands. Það sem ég veit er að það stendur til stórleiðangur hjá Norðmönnum hingað norðan við okkur,“ segir Sigurður. 

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×