Lífið

Missti sjónina meðan mamma var enn að vagga mér í vöggu

Ellý Ármanns skrifar
Það færist sífellt í aukana að fyrirtæki haldi úti bloggsíðum á eigin vegum þar sem starfsfólk skrifar um viðfangsefni sín og áhugamál. Eitt af þessum fyrirtækjum er upplýsingatæknifyrirtækið Advania, en á vef þeirra birtist vikulega blogg um fjölbreytt málefni, sem tengjast þekkingariðnaði.

Bloggin hjá Advania eru yfirleitt hefðbundin og miðuð við upplýsingatæknigeirann, nema þegar Birkir Rúnar Gunnarsson sest við lyklaborðið, en hann starfar sem ráðgjafi í aðgengismálum hjá Advania. Gefum Birki Rúnari orðið.

Áhrifarík dama frá Pakistan

„Þegar ég var pínulítill patti missti ég alfarið sjónina meðan mamma var enn að vagga mér í vöggu ... Upp úr 12 ára aldri fór ég fyrst að fikta í tölvum ... Með þeim gat ég til dæmis skrifað ritgerðir og annað efni, prentað út fyrir kennara og kollega [og] fengið námsefni á aðgengilegu rafrænu formi ... Með hjálp tækninnar tókst mér að komast í gegnum Verzló með ágætum en sífellt meiri tími fór í að nördast á netinu, svona eins og gengur hjá 18 ára nördum."

Birkir Rúnar Gunnarsson.
Birkir Rúnar ræðir síðan hvernig hann hitti fyrstu kærustuna gegnum IRC-ið, lenti svo á spjallrás hljómsveitarinnar Pulp og kynntist dömu frá Pakistan sem var að klára tölvunarfræði í Yale-háskólanum. Þar kviknaði hjá honum sú hugmynd að leggja stund á tölvunarfræði og eftir harðfylgni og smávegis undirbúning í tölvunarfræði hér á landi komst hann inn í Yale-háskólann í annarri tilraun. Þetta var árið 1998.

Frá áhættustýringu til aðgengismála


Í blogginu segir Birkir Rúnar síðan frá því hvernig hann útskrifaðist frá Yale með BS-gráður í tölvunarfræði og hagfræði, starfaði hjá bandarískum banka um hríð, hitti núverandi konu sína á netinu, eignaðist með henni þrjú börn og flutti til Íslands þar sem hann vann við áhættustýringu hjá Glitni um skeið. 

„Á meðan frúin hefur verið að vinna hörðum höndum að barneignum ... og ná sér í doktorspróf í heimspeki ákvað ég að ekki þýddi að sitja auðum höndum. Eftir að hafa velt fyrir mér að taka próf í áhættustýringu ákvað ég að hugurinn stæði einfaldlega ekki lengur til bankageirans. Ég fór að hugsa um hvað aðgengi að tölvutækninni hafði gert fyrir mig. Í gegnum hana eignaðist ég vini, fann eiginkonuna mína, komst í einn virtasta háskóla í heimi, vann eitt sumar fyrir Microsoft og lenti í boði heima hjá Bill Gates. Allt þetta hefði aldrei gerst hefði ég ekki getað haft aðgang að tölvutækninni og netinu.“ 

Lífleg ævisaga

Birkir Rúnar fer að þessu sögðu nánar út í hvað felst í ráðgjöf hans í aðgengismálum og nauðsyn hennar fyrir samfélagið. Blogg Birkis Rúnars er stórskemmtileg lesning og í rauninni lífleg ævisaga hans í hnotskurn.

Smellið hérna til að lesa meira af þessu óvenjulega bloggi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×