Innlent

Minnkandi kjörsókn viðvörun fyrir Ísland

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Franskur þingmaður telur að almenningur í Frakklandi og víðar í Evrópu hafi misst trúna á stjórnmálaflokkum og kjósi því í auknum mæli þjóðernisflokka og öfga hægriflokka. Minnkandi kjörsókn sé varúðarmerki fyrir Íslendinga.



Lionel Tardy hefur setið á franska þinginu frá 2007 fyrir hægriflokk Nicolas Sarkozy, fyrrverandi Frakklandsforseta. Tardy ræddi um stöðu franskra stjórnmála á Nauthóli, í Reykjavík í dag. Þar í landi hafa orðið miklar breytingar eftir sigur Þjóðfylkingar Marie Le Pen, öfga hægri flokks, í Evrópuþingskosningum fyrr í sumar. Öfga hægriflokkar og flokkar andsnúnir Evrópusambandinu unnu víðar sigur sem hefur komið stjórnmálastéttinni úr jafnvægi.

Tardy telur að skortur sé á trú á stjórnmálamenn í Evrópu. „Fólk kann að kjósa öfgaflokka þegar það hefur það á tilfinningunni að flokkarnir hafi fjarlægst það,“ segir Tardy. „Svo það eru sterk skilaboð þar sem stjórnmálaflokkum er hafnað. Þess vegna geta kosningar farið svona.“

Tardy hefur fylgst náið með uppgangi þjóðernisflokka og öfga hægri flokka í Evrópu. Sér hann Íslendinga ganga í gegnum það sama og Frakkar?

„Það er líka vandamál að fólk kýs ekki. Við sáum á Íslandi að 34% kusu ekki í síðustu kosningum en það voru aðeins 26% árið 2004, svo við sjáum að sífellt fleiri kjósa ekki.“

Tardy er formaður Íslendingavinafélags franska þingsins. Hann telur mikla möguleika á nánari samstarfi milli Íslands og Frakklands.

„Við höfum talað í allan dag um menningargrundvöllinn, samvinnu á milli borga og menningarverkefni sem hægt er að þróa, en einnig um nýsköpun og ný fyrirtæki, uppbyggingu viðskiptatengsla á milli landanna. Það er það sem við erum að vinna að.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×