Innlent

Mikill meirihluti telur stjórnvöld skorta framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
96% svarenda könnunarinnar telja að ferðaþjónustan hafi jákvæð áhrif á hagkerfið.
96% svarenda könnunarinnar telja að ferðaþjónustan hafi jákvæð áhrif á hagkerfið. Vísir/Stefán
Þrír af hverjum telja að hið opinbera skorti framtíðarsýn þegar kemur að íslenskri ferðaþjónustu. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Ferðamálastofu um viðhorf Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu.

Tæplega helmingur svarenda telur ferðamenn spilla náttúru landsins og þá telur tæpur fimmtungur ferðamenn spilla upplifun sinni af náttúrunni.

Langflestir, eða 96% svarenda, telja hins vegar að ferðamenn hafi jákvæð áhrif á hagkerfið og 90% telja að þeir efli þjónustuframboð.

Þá telja tveir af hverjum þremur að fjöldi ferðamanna á sumrin sé hæfilegur, 22% segja hann of mikinn og 6% of lítinn. Tæplega helmingur svarenda er hins vegar á því að fjöldi ferðamanna á veturna sé of lítill, tæplega helmingur telur hann hæfilegan og 3% segja hann of mikinn.

Meirihluti telur að uppbygging ferðaþjónustu sé of hæg miðað við fjölgun ferðamanna en 22% segja hana í takt við fjölgun ferðamanna.

Sjö af hverju tíu telja svo ferðaþjónustu nokkuð mikilvæga fyrir efnahagslíf landsins og tæplega þriðjungur telur hana vera undirstöðuatvinnuveg.

Könnun Félagsvísindastofnunar var framkvæmd sem símakönnun og var lögð fyrir dagana 2. október til 3. nóvember 2014. Úrtakið var 2000 manns og var það valið tilviljunarkennt úr Þjóðskrá. Svarhlutfall var 59%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×