Innlent

Mikið um stúta í höfuðborginni

Vísir/Vilhelm
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði töluverð afskipti af fólki sem ók undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Þannig var karlmaður um þrítugt tekinn úr umferð um klukkan hálf þrjú í austurborginni þar sem hann ók bifreið á Snorrabraut.

Hann var undir áhrifum fíkniefna að sögn lögreglu og bifreiðin á röngum skráningarmerkjum. Maðurinn hafði að auki áður verið sviptur ökuréttindum og var jafnframt eftirlýstur vegna rannsókna annarra brota. Hann gistir nú fangageymslu og verður yfirheyrður þegar hann verður í ástandi til þess.

Um klukkan þrjú var karlmaður á sama aldri tekinn úr umferð. Sá ók bifreið í Langholtshverfi. Hann var undir áhrifum fíkniefna, sviptur ökuréttindum og hafði fíkniefni í fórum sínum. Upp úr klukkan tvö hljóp karl á fertugsaldri frá bifreið sinni eftir að lögreglumenn höfðu stöðvað akstur hans í Túnahverfi í Kópavogi. Hann var síðan handtekinn skammt frá. Maðurinn var áberandi ölvaður og hafði áður verið sviptur ökuréttindum.

Þá var karl á þrítugsaldri stöðvaður í Fellahverfi upp úr klukkan fjögur í nótt. Hann var undir áhrifum fíkniefna, hafði áður verið sviptur ökuréttindum og hafði fíkniefni í fórum sínum. Lögregla koma að þremur rúmlega tvítugum konum við Þjóðarbókhlöðuna upp úr miðnætti og voru þær að meðhöndla kannabis. Fíkniefnin sem þær voru með voru haldlögð og teknar voru skýrslur á vettvangi.

Upp úr klukkan fjögur var síðan karl á fimmtugsaldri stöðvaður í akstri á Hverfisgötu. Hann var undir áhrifum fíkniefna við aksturinn að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×