Innlent

Meira fé til heilbrigðis- og menntamála

Heimir Már Pétursson skrifar
Töluverðu fjármagni verður bætt í heilbrigðismálin og menntamálin samkvæmt tillögum meirihlutans í fjárlaganefnd og ríkið mun greiða meira í mótframlag við lyfjakaup. Þá verður lægra þrep virðisaukaskattsins 11 prósent en ekki tólf eins og fyrirhugað var.

Fjárlaagfrumvarpið tekur töluverðum breytingum í meðförum fjárlaganefndar. Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar staðfestir þetta en vill ekki nefna upphæðir í þessum tillögum.

„Þær verða teknar fyrir formlega á fundi gjárlaganefndar klukkan tvö á morgun. Já, en ég get staðfest það að það er verið að gefa í í heilbrigðismálunum og það er afar gleðilegt. Þetta sprettur fyrst og fremst af því að það voru vanáætlaðar ríkistekjur í fjárlagafrumvarpinu á sínum tíma þegar það er sett saman í júní, júlí upp á rúmlega átta milljarða. Þannig að það er svigrúm sem við erum glöð með að hafi skapast,“ segir Vigdís.

Þarna sé um umtalsverðar upphæðir að ræða. Þá verði einnig sett meira fjármagn í menntamálin en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

„Og við erum líka að gera tillögu um að þetta komi líka til almennings í formi afsláttar á lyf. Þetta dreifist skemmilega lágrétt á heilbrigðisþjónustuna alla, þetta aukna fé,“ segir Vigdís.

Þá er til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd að lægra þrep virðisaukaskatts hækki ekki eins mikið og fyrirhugað var. Skatturinn hækki úr 7 prósentum í 11 prósent en ekki tólf.

„Raunverulega er ég komin út fyrir mitt svið því að því þetta er í hinni nefndinni (efnahags- og viðskiptanefnd). En miðað við umfjöllun um málið í dag og í fréttum þá held ég að ég sé ekki að fara yfir á annað svið þó ég staðfesti að virðisaukaskatturinn verður 11 prósent. Neðra þrepið fer upp í 11 prósent í stað tólf prósenta,“ segir Vigdís Hauksdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×