Lífið

Með vatnspoka á bakinu hjá Björk

Jóna G Kolbrúnardóttir, hér ásamt Guðrúnu Matthildi Sigurbergsdóttur í Graduale Nobili, segir það magnaða upplifun að standa upp á sviði með Björk fyrir framan æsta áhorfendur í Manchester.
Jóna G Kolbrúnardóttir, hér ásamt Guðrúnu Matthildi Sigurbergsdóttur í Graduale Nobili, segir það magnaða upplifun að standa upp á sviði með Björk fyrir framan æsta áhorfendur í Manchester.
„Það er búið að ganga mjög vel og ótrúleg tilfinning að taka þátt í þessu,“ segir Jóna G. Kolbrúnardóttir um tónleika Bjarkar Guðmundsdóttur í Manchester en Jóna er hluti af kórnum Graduale Nobili sem syngur bakraddir hjá Björk. Núna er tveimur tónleikum lokið af sex en kórinn verður í Manchester í tæpan mánuð ásamt stórstjörnunni og fylgdarliði hennar.

„Við höfum það mjög gott. Gistum í flottum hótelíbúðum og höfum allt til alls. Við höfum líka náð að skoða aðeins bæinn, sem er mjög fallegur, og fengið flott sumarveður,“ segir Jóna en þær hafa líka verið í ströngu æfingaprógrammi. Uppselt er á alla tónleikana og hafa þeir fengið góða dóma í miðlum á borð við The Guardian og The Independent

„Tónleikarnir eru haldnir í hálfgerðri skemmu sem tekur um 1.800 manns. Áhorfendur standa í kringum sviðið og fylgjast með en við stöndum annaðhvort á sviðinu eða röðum okkur upp í kringum það. Björk er svo á iði úti um allt. Þetta er mjög sjónrænt og flott,“ segir Jóna og viðurkennir að það sé mögnuð upplifun að standa á sviði með Björk fyrir framan æsta áhorfendur. „Sumir hverjir eru alveg rosalega miklir aðdáendur Bjarkar og nánast með hana í guðatölu. Það er gaman að fylgjast með því.“

Kórinn fékk sérsaumaða kjóla fyrir tónleikana en í þeim leynast ísaumaðir vatnspokar með röri sem kemur út um hettuna. „Það er fyndið en nauðsynlegt að geta fengið sér vatnssopa þegar manni hentar því það verður mjög heitt á sviðinu,“ segir Jóna en ævintýri Graduale Nobili í Manchester lýkur þann 17. júlí.

-áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×