Innlent

Með væg brunasár eftir blossa á spa-svæði

Þorbjörn Þórðarson skrifar
World Class Laugum við Sundlaugarveg í Laugardal.
World Class Laugum við Sundlaugarveg í Laugardal. vísir/vilhelm
Ung kona var flutt á spítala með minniháttar brunasár eftir væga gassprengingu í World Class Laugum í morgun. Konan slasaðist þegar hún reyndi að kveikja upp í gasknúnum arni á spa- slökunarsvæði líkamsræktarstöðvarinnar. 

Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins barst tilkynning kl. 10:45 í morgun um gassprengingu í World Class, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Sendur var einn brunabíll og tveir sjúkrabílar á staðinn. Þegar þangað var komið var ljóst að umfangið var minna en talið var í fyrstu.

Ung kona var flutt á spítala til aðhlynningar með brunasár á andliti og höndum. Sprengingin varð þegar hún var að reyna að kveikja upp í arni á spa-svæði líkamsræktarstöðvarinnar en hann er knúinn með gasi.

Snöggur blossi varð með áðurnefndum afleiðingum fyrir konuna.

Slökkviliðsmenn loftræstu svæðið, en nokkur gaslykt var á svæðinu. Höfðu slökkviliðsmenn lokið störfum klukkan hálf tólf fyrir hádegi og ekki þurfti að loka aðstöðunni vegna atviksins.



Uppfært klukkan 11.51

Björn Leifsson, eigandi World Class, segir að fjártjón sé ekkert. Komið hafi upp snöggur blossi í arninum og kannað verði hvers vegna það hafi gerst, en slíkt eigi ekki að geta átt sér stað. Ekki þurfti að loka spa slökunarsvæðinu vegna atviksins en Björn segir að ekki verði kveikt upp í arninum fyrr en búið sé að laga hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×