Innlent

Matarkarfan enn ódýrust hjá Bónus

Samúel Karl Ólason skrifar
ASÍ segir oft mikin verðmun á kjöti á þessum árstíma.
ASÍ segir oft mikin verðmun á kjöti á þessum árstíma. Vísir/GVA
Matarkarfan er ódýrustu í verslunum Bónus samkvæmt verðlagseftirliti Alþýðusambands Íslands. Þar kostar hún 17.729 krónur, en dýrust var hún hjá Haugkaupum, eða 22.322 krónur. Verðmunurinn er 26 prósent.

Hjá Krónunni kostaði matarkarfan 18.685 krónur, sem er fimm prósent dýrara en hjá Bónus. Hjá Nettó var verðið 19.798 krónur, tólf prósent. Hjá bæði Iceland og Fjarðarkaup var karfan 14 prósentum dýrari og hjá Samkaupum-Úrval og Víði er karfan 18 prósentum ódýrari.

Matarkarfan samanstendur af 51 almennum neysluvörum til heimilisins t.d. mjólkurvörum, morgunkorni, grænmeti, kjöti, drykkjarvörum, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat og fleiru.

Mikill verðmunur var á einstaka vörum í körfunni. Sem dæmi er nefnt í tilkynningu frá ASÍ að KEA kókosskyr kostaði 173 krónur hjá Bónus og 198 krónur hjá Samkaupum Úrval og Hagkaupum, sem er um 26 prósenta munur.

Þá er einnig nefnt að oft sé mikill verðmunur á lambakjöti á þessum árstíma. Þar sem kjöt frá því í fyrra sé oft í sölu og oftast á tilboðum.

Grænmeti og ávextir voru oftast ódýrastir hjá Iceland en dýrastir hjá Hagkaupum.

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum; Bónus Skipholti, Krónunni Höfða, Nettó Granda, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Iceland Engihjalla, Víði Garðabæ, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði og Hagkaupum Kringlunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×