Íslenski boltinn

Markakóngur KA á Skagann og annar til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skagamenn hafa fengið liðsstyrk fyrir komandi átök í Pepsi-deildinni.
Skagamenn hafa fengið liðsstyrk fyrir komandi átök í Pepsi-deildinni. vísir/valli
Nýliðar ÍA í Pepsi-deild karla hafa samið við tvo erlenda leikmenn, Marko Andelković og Arsenij Buinickij. Þetta kemur fram á heimasíðu ÍA.

Andelković er þrítugur miðjumaður frá Serbíu. Hann hefur æft með Skagamönnum að undanförnu og lék æfingaleik með þeim gegn FH í gær.

Andelković, sem er alinn upp hjá serbneska stórliðinu Partizian Belgrad, spilaði með Viitorul í Rúmeníu á síðasta tímabili en hann hefur einnig spilað með FK Ekranes í Litháen þar sem hann gerði gott mót.

Buinickij var mótherji Skagamanna í 1. deildinni í fyrra þegar hann lék með KA. Hann skoraði þá tíu mörk í 21 leik.

Buinickij, sem verður þrítugur á árinu, er Lithái og spilaði, líkt og Andelković, með Ekranes. Þeir voru liðsfélagar hjá Ekranes árið 2012.

"Við erum búnir að vinna í þessum leikmönnum í nokkurn tíma og ég er ánægður með að ná loksins að klára þetta,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA í samtali við heimasíðu félagsins.

„Við fylgdumst vel með Arsenji síðasta sumar og hann er góður sóknarleikmaður með mikla reynslu. Marko kom svo til landsins á reynslu síðustu daga og augljóst að þar er á ferðinni leikreyndur miðjumaður sem er öruggur á boltann og kemur til með að styrkja liðið mikið."

ÍA mætir Stjörnunni í fyrsta leik sínum í Pepsi-deildinni sunnudaginn 3. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×