Lífið

María og Andre Heinz gengu í það heilaga í Stokkhólmi

Atli Ísleifsson skrifar
Andre Heinz er hér lengst til vinstri á myndinni.
Andre Heinz er hér lengst til vinstri á myndinni. Vísir/AFP
Hin íslenska María Marteinsdóttir og Bandaríkjamaðurinn Andre Heinz gengu í það heilaga í Stokkhólmi í Svíþjóð fyrr í dag.

María er 35 ára og er með mastersgráðu í eðlisfræði frá háskólanum í Stokkhólmi. Hún starfar á Karólínska háskólasjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Hún hefur ekki tjáð sig opinberlega um samband sitt og Heinz, en í frétt Vísis frá í fyrra segir að þau María og Andre hafi kynnst í Stokkhólmi fyrir þremur og hálfu ári.

Hinn 46 ára Andre Heinz er sonur  Teresa Heinz Kerry og fyrrverandi öldungadeildarþingmannsins John Heinz III heitins, og stjúpsonur John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Heinz mun í október taka við stjórnarformennsku í velgjörðastofnun Heinz-fjölskyldunnar, en Heinz-fjölskyldan hefur auðgast mikið á framleiðslu samnefndrar tómatsósu og tengdra vara.

Jodie Foster á meðal gesta

Í frétt Aftonbladet um brúðkaupið segir að öryggisgæsla hafi verið mikil, en það sækja meðal annars utanríkisráðherrann Kerry og leikkonurnar Jodie Foster og Julia Roberts.

„María og Andre, 20. ágúst 2016,“ á að hafa staðið á stóru hvítu skilti við veginn sem leiðir upp að herragarðinum þar sem athöfnin fór fram, en hann er í skógi í Södermanland, suður af Stokkhólmi.

Í fréttinni segir að fjöldi brúðkaupsgesta hafi yfirgefið Grand Hótel í Stokkhólmi skömmu fyrir klukkan 15 að staðartíma og farið að herragarðinum í rútum. Milli 350 og 400 manns eiga að hafa verið viðstaddir athöfnina.

Tolkien-þema

Fréttamaður Aftonbladet segir að svo virðist sem að Tolkien-þema hafi verið í brúðkaupinu þar sem margir gesta hafi klæðst oddhvössum eyrum og litríkum kuflum líkt og þekkist í sögum Tolkien.

Skömmu fyrir klukkan 18 að staðartíma færðu gestirnir sig niður í átt að vatninu þar sem athöfnin fór fram. Kerry á þar að hafa flutt hjartnæma ræðu þar sem hann minntist meðal annars á að brúðurinn og brúðguminn misstu bæði feður sína snemma á líksleiðinni, en Kerry á að hafa framkvæmt sjálfa vígsluna.

Í frétt Aftonbladet má sjá myndir af brúðhjónunum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×