Fótbolti

Müller vill ekki fara til United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Müller ræðir við stuðningsmenn á æfingasvæði Bayern í dag.
Müller ræðir við stuðningsmenn á æfingasvæði Bayern í dag. Vísir/Getty
Thomas Müller segir að honum sé heiður sýndur með því að orða hann við Manchester United á Englandi en þessi 25 ára kappi vill vera um kyrrt í Þýskalandi.

Louis van Gaal er sagður hafa áhuga á kappanum en hann sagði í viðtali við Bild í heimalandinu að hann hafi ekki í hyggju að fara frá Bayern München.

„Þegar maður fær tilboð þá íhugar maður það ósjálfrátt. Það er heiður að fá fyrirspurn frá stóru félagi og segir manni að frammistaða manns er metin að verðleikumm,“ sagði Müller.

„En mér líður vel hjá Bayern og samningur minn gildir hér til 2019. Það er ekkert meira sem þarf að segja um þessar vangaveltur.“

Müller hefur fjórum sinnum orðið Þýskalandsmeistari hjá Bayern og spilaði undir stjórn Van Gaal hjá félaginu á sínum tíma. Hann vill vinna enn fleiri titla og slá við þeim Memet Scholl, Oliver Kahn og Bastien Schweinsteiger, sem einnig er orðaður við United, en þeir hafa allir unnið átta titla.

„Það er ekki aðalmarkmið mitt að verða sá fyrsti til að vinna níu titla en ég ætla vera hér áfram og við viljum vinna titilinn á hverju ári.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×