Skoðun

Lýðræði í ESB

G. Pétur Matthíasson skrifar
Utanríkisráðherrann okkar upplýsti okkur sauðsvartan almúgann um það á Bloomberg að í Evrópusambandinu ætti sér stað aukin miðstýring og völdin innan þess væru að færast frá aðildarlöndunum til embættismanna.

Hann sagði þetta reyndar sína skoðun. En ósannindi verða ekki rétt þótt þau séu kölluð skoðun. Áhrifamenn 28 ESB-ríkja vita betur. Þeir vita að síðustu ár, í síðustu sáttmálum ESB, hafa völd og áhrif hins lýðræðislega kjörna Evrópuþings aukist. Skipulag leiðtogaráðsins og þar með völd þess hafa verið niðurnegld, í Lissabon-sáttmálanum, og þar sitja til borðs leiðtogar aðildarlandanna. Sama á við um ráðherraráðið, þar ráða aðildarlöndin. Völd og mikilvægi aðildarlandanna hafa alls ekki minnkað og lýðræðið hefur aukist til muna.

Á næsta ári verður 751 lýðræðislega kjörinn fulltrúi á Evrópuþinginu auk þess sem almenningi gefst kostur á að koma málum á dagskrá með undirskriftasöfnunum.

Í framkvæmdastjórninni situr einn stjóri frá hverju aðildarlandanna, þannig að þrátt fyrir að framkvæmdastjórnin sé í eðli sínu samkunda embættismanna er þar að finna beina aðkomu aðildarlandanna. Evrópuþingið er kosið af almenningi og fulltrúarnir í leiðtogaráðinu og ráðherraráðinu eru kjörnir fulltrúar hver frá sínu landi. Þannig að óbeint eru þeir lýðræðislega kosnir til þessara verka.

Enginn lýðræðishalli

Sambandið hefur aukið lýðræðið hjá sér á undanförnum árum, ekki dregið úr því. Það má færa fyrir því rök að það sé enginn lýðræðishalli í Evrópusambandinu og vissulega er ekkert fyrirbæri, engin alþjóðleg stofnun til, þar sem meira lýðræði er að finna en innan ESB.

Vilji menn ganga lýðræðisbrautina á enda þarf að breyta ESB í sambandsríki en fyrir því er einfaldlega ákaflega hverfandi áhugi, það er engan raunverulegan áhuga á því að finna innan Evrópu.

Eigi að síður er nauðsynlegt fyrir ESB að auka lýðræðið enn meira. Til þess þarf að finna nýjar leiðir og nýjar útfærslur. ESB hefur sýnt að það kann að leita nýrra leiða til lausna enda stundum talað um að innan þess sé að finna samningalýðræði frekar en meirihlutalýðræði.

Það er ómögulegt að sjá miðstýringu út úr leiðtoga- og ráðherraráði, framkvæmdastjórn og Evrópuþingi. Öðru nær, togstreitan og samvinnan milli þessara stofnana ESB sýnir einmitt valddreifinguna.

Það gengur svo ekki að byggja skoðun sína á mýtu, hvað þá eldgamalli mýtu. Hver svo sem skoðun utanríkisráðherra á ESB er þá verður hann að afla sér haldbetri upplýsinga um sambandið en fyrrnefnd ummæli benda til að hann hafi gert.

Og já, engar fréttir hafa borist um aukið lýðræði í Kína.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×