Innlent

Lokka skoska skíðagarpa til Íslands

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mögulega munu fleiri Skotar leggja leið sína í Bláfjöll.
Mögulega munu fleiri Skotar leggja leið sína í Bláfjöll. vísir/vilhelm
Allir þeir sem kaupa árskort á skíðasvæðum Skotlands, meðal annars í Cairngorms, Glencoe Glenshee og Nevis Range, fá einnig aðgang að skíðasvæðum hér á landi. Frá þessu greinir breska fréttaveitan Courier.

Samkomulag þessa efnis náðist á ráðstefnu NASAA, samtaka skíðasvæða á Íslandi og Skotlandi, sem fór fram í Skotlandi á dögunum.

„Við höldum að þetta sé fyrsta milliríkjasamkomulagið á milli allra skíðasvæða tveggja landa,“ hefur Cour­ier eftir Heather Negus, formanni Ski Scotland. „Þótt það sé samstarf þvert á landamæri á milli einstakra skíðasvæða annars staðar er þessi samningur einstakur þar sem hann nær til hvers einasta skíðasvæðis jafnt á Íslandi og á Skotlandi.“

Negus bætti því við að í ljósi þess að daglegar flugferðir séu á milli Íslands og Skotlands sé líklegt að margir skoskir skíðagarpar grípi tækifærið og skelli sér til Íslands til að skíða í nýju umhverfi eða njóta nýrrar menningar.

Í frétt Courier er einnig rætt við Malcolm Roughead, framkvæmdastjóra VisitScotland, sem segir Ísland og Skotland lítil lönd sem séu sérstaklega vinsæl á meðal ferðamanna. „Þetta sögulega samvinnuverkefni felur í sér samnýtingu upplýsinga um það hvernig best sé að reka skíðasvæði og stuðla að auknum viðskiptum.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×