Innlent

Lögbrot við skipun nefndar

svavar hávarðsson skrifar
Hópurinn á að kanna hvernig má jafna rétt foreldra, en skipan hans brýtur jafnréttislög. Myndin tengist efni fréttarinnar ekkert.
Hópurinn á að kanna hvernig má jafna rétt foreldra, en skipan hans brýtur jafnréttislög. Myndin tengist efni fréttarinnar ekkert. fréttablaðið/gva
„Þetta stenst ekki lög,“ segir Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, spurð um skipan Ólafar Nordal innanríkisráðherra á starfshópi sem á að kanna hvernig megi jafna stöðu foreldra sem fara með sameiginlega forsjá barna.

Umræddur starfshópur er skipaður fimm konum og einum karli, og hlutfall kvenna er því 80% á móti 20% karla.

Kristín segir að í 15. grein jafnréttislaga, eða laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna, komi skýrt fram að það beri við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga að gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Í lagatextanum segir orðrétt að „markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.“

„Það er ekki hægt að sjá að það sé nokkur einasta hlutlæg ástæða fyrir því að fleiri lögfræðingar af karlkyni geti ekki haft þekkingu á þessum málaflokki. Það ber að undirstrika það að þegar tilnefnt er í starfshóp, og útkoman verður þessi, þá ber ráðherra að rétta af kynjahallann. Í þessu tilviki hefði hún getað gert það sjálf með því að tilnefna karlmann, eða í versta falli beðið einhvern tilnefningaraðilann um að breyta sinni skipan. Að auki stendur í lögunum að við tilnefningar skal tilnefna bæði karl og konu til að ráðherra hafi svigrúm til að skipa rétt,“ segir Kristín og bætir við að um sé að ræða annað tilvikið á stuttum tíma þar sem jafnréttislög eru brotin með þessum hætti.

Kristín Ástgeirsdóttir
Þar vísar Kristín til þess að Þjóðleikhúsráð uppfyllir ekki fyrrnefnd lög um jafna stöðu karla og kvenna. Fjórir karlar sitja í ráðinu en aðeins ein kona. Skipanin í Þjóðleikhúsráð er til skoðunar hjá Jafnréttisstofu og skýringa hefur verið leitað hjá hlutaðeigandi ráðuneyti. Það sama mun verða uppi á teningnum varðandi hóp innanríkisráðherra.

„Það er áhyggjuefni að þetta skuli gerast trekk í trekk án þess að nokkuð réttlæti það. Lögin segja að upp geti komið sú staða, þegar málið er mjög sérhæft, að skipun sé með þessum hætti. Það á einfaldlega ekki við í þessum tveimur dæmum,“ segir Kristín og aftekur um leið að það skipti máli þó um starfshóp sé að ræða – en ekki nefnd, ráð eða stjórn eins og segir í lagatextanum. „Þetta er ekkert annað en nefnd; annað væri orðhengilsháttur.“

Einn karl með fimm kvenna hópi


Starfshóp um hvernig jafna megi stöðu foreldra með sameiginlega forsjá barna skipa:

Þórhildur Líndal, forstöðumaður Rannsóknarstofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumál og jafnframt formaður, tilnefnd af innanríkisráðherra.

Guðríður Bolladóttir, lögfræðingur í velferðarráðuneytinu, tilnefnd af félags- og húsnæðismálaráðherra.

Sólveig Jóhanna Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Þjóðskrá Íslands, tilnefnd af Þjóðskrá Íslands.

Pálmi Þór Másson, deildarstjóri hjá lögfræðideild Kópavogsbæjar, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Rakel Þráinsdóttir, lögfræðingur hjá Sýslumanninum á Suðurnesjum, tilnefnd af Sýslumannafélagi Íslands.

Með starfshópnum starfar Svanhildur Þorbjörnsdóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×