Innlent

Lög um ærumeiðingar ströng í alþjóðasamanburði

Bjarki Ármannsson skrifar
Þrír menn hlutu dóm fyrir að smána bandarísku þjóðina árið 2002.
Þrír menn hlutu dóm fyrir að smána bandarísku þjóðina árið 2002. Vísir/Vilhelm
Hvergi í Evrópu varðar móðgun gagnvart erlendri þjóð eða þjóðarmerki, eða móðgun við fána Evrópusambandsins eða Evrópuráðs, þyngri hámarksrefsingu en á Íslandi. Samkvæmt 95. grein almennra hegningarlaga er hægt að fangelsa einstakling í sex ár fyrir „opinbera smánun“ af þessu tagi séu „sakir miklar“.

Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðlegu fjölmiðlastofnunarinnar (IPI) sem birt var fyrr í mánuðinum. Í skýrslunni eru borin saman lög um ærumeiðingar í aðildarríkjum Evrópusambandsins en þar er einnig að finna samantekt um þau sex ríki sem sótt hafa um aðild að sambandinu undanfarið, þar á meðal Ísland.

Þar kemur fram að einungis Þýskaland er með svipað hörð viðurlög og Ísland fyrir brot af þessu tagi, en þar í landi er mest hægt að fá fimm ára fangelsisdóm. Enginn hefur hlotið hámarksrefsingu fyrir þetta brot á Íslandi, en til að mynda hafa Steinn Steinarr skáld og Erpur Eyvindarson rappari verið kærðir fyrir brot á þessum lögum.

Margt megi betur fara í Evrópu

Í skýrslunni er athygli vakin á því að þrátt fyrir hörð viðurlög við því að smána erlend ríki er ekki ólöglegt á Íslandi að móðga íslenska ríkið. Í skýrslunni er þess einnig getið að hægt sé að fá eins árs fangelsisdóm hér á landi fyrir að meiða æru látins manns. Aðeins fjögur önnur ríki Evrópu eru með jafnþung viðurlög. Þá er það tekið fram að Ísland og Tyrkland eru einu umsóknarríkin þar sem ærumeiðingar geta varðað fangelsisvist.

Komist er að þeirri niðurstöðu í skýrslunni að margt megi betur fara í evrópskum lögum um ærumeiðingar. Víða standist lög og dómsúrskurðir ekki alþjóðlegar kröfur um tjáningarfrelsi, sem grafi undan lýðræðiskerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×