Innlent

Lítil endurnýjun í hópi sjúkraliða

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Um þrjátíu prósent þeirra sem starfa á stofnunum fyrir aldraða eru ófagmenntaðir. Sjúkraliðar fást ekki til starfa, stéttin eldist hratt og lítil endurnýjun er hópi þeirra.
Um þrjátíu prósent þeirra sem starfa á stofnunum fyrir aldraða eru ófagmenntaðir. Sjúkraliðar fást ekki til starfa, stéttin eldist hratt og lítil endurnýjun er hópi þeirra. Fréttablaðið/pjetur
Meðalaldur sjúkraliða er um 52 ár og fer ört hækkandi. Á þessu ári hafa 118 sjúkraliðar fengið starfsleyfi en menn telja að þeir þyrftu að vera margfalt fleiri til að manna lausar stöður sjúkraliða og koma í stað þeirra sem fara á eftirlaun.

Raunar hafa heldur fleiri starfsleyfi verið gefin út í ár en í fyrra þegar þau voru 97.

„Sjúkraliðar eru að eldast. Þó að ungt fólk fái útgefin starfsleyfi sem sjúkraliði skilar það sér ekki inn á sjúkrastofnanirnar. Þeir ungu fara í önnur störf og töluvert margir hafa haldið til Noregs og starfa þar,“ segir Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.

Kristín Á. guðmundsdóttir
Það vantar sjúkraliða sem eru yngri en 30, raunar má segja að það vanti heilu kynslóðirnar inn á sjúkrastofnanir sem menn telja afar slæmt því það sé unga fólkið sem komi með nýja þekkingu og ný viðhorf. Talið er að það verði erfitt og kannski ógerningur að snúa þessari þróun við og fá yngra fólk til starfa.

Kristín segir að þetta vandamál sé ekki nýtt af nálinni. Það hafi verið viðvarandi í mörg ár. Hún segir erfitt að hvetja fólk til að læra fagið á meðan laun og starfskjör séu jafn bágborin og raun ber vitni.

„Það er gríðarlegt álag í þessu starfi. Í sparnaðarskyni eru menn líka stöðugt að minnka starfshlutfall sjúkraliða og breyta vöktunum. Það er stöðugt verið að krefjast meira vinnuframlags,“ segir Kristín og bætir við að sjúkraliðar fari heim með það á tilfinningunni að þeir hafi ekki náð að sinna starfi sínu eins vel og þeir vilji. „Þetta veldur því að sjúkraliðar eru margir hverjir haldnir kvíðaröskun,“ segir Kristín. Hún segir að stórir hópar sjúkraliða séu komnir á örorku vegna álags í vinnu.

„Sjúkraliðafélagið er innan vébanda BSRB. Þeir eiga aðild að sjúkrasjóði samtakanna. Ég tók þátt í því að úthluta úr sjóðnum í gær. Þrátt fyrir að sjúkraliðar séu fámennur hópur innan BSRB fengu þeir um helming þeirra styrkja sem var úthlutað,“ segir Kristín og bætir við að það segi ýmislegt um stöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×