Fótbolti

Leikurinn á móti Íslandi var síðasti landsleikurinn á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Fuchs, varnarmaður ensku meistaranna í Leicester City og fyrirliði austurríska landsliðsins, segist vera hættur í landsliðinu eftir vonbrigðin á Evrópumótinu í Frakklandi.

Christian Fuchs er þó bara þrítugur en hann hefur spilað með landsliðinu í áratug. Hann hefur verið fyrirliði Austurríkismanna frá árinu 2012.

Christian Fuchs spilaði hverja einustu mínútu með Austurríki á EM í Frakklandi og var líka með í öllum tíu leikjunum í undankeppninni,.

78. og síðasti landsleikur Fuchs á ferlinum er því tapleikurinn á móti Íslandi í lokaumferð riðlakeppninnar á EM.

Austurríska landsliðið varð að vinna leikinn til að eiga möguleika á því að komast í sextán liða úrslitin en íslenska liðinu nægði jafntefli.  Ísland komst í 1-0 og austurríska liðið klikkaði á vítaspyrnu áður en það náð að jafna leikinn í seinni hálfleik. Arnór Ingvi Traustason tryggði Íslandi síðan sigurinn með síðustu spyrnu leiksins.

Þetta var enginn draumaendir á draumatímabilinu þar sem hann var lykilmaður hjá Leicester City sem vann óvænt enska titilinn.

Christian Fuchs kom til Leicester City frá Schalke 04 á frjálsri sölu síðasta sumar og varð fyrsti Austurríkismaðurinn til að verða enskur meistari síðan að Alex Manninger vann titilinn með Arsenal 1998.

Samningur Christian Fuchs og Leicester City er til ársins 2018 en hann ætlar engu að síður að hætta í landsliðinu þótt að hann sé á fullu að spila í bestu deild í heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×