Lífið

Legó inn fyrir Forsetann

Baldvin Þormóðsson skrifar
Hljómsveitin Gus Gus hefur átt farsælan feril síðan 1995.
Hljómsveitin Gus Gus hefur átt farsælan feril síðan 1995. mynd/aðsend
Einhverjar hræringar eru í hljómsveitinni Gus Gus sem er þessa dagana að undirbúa tónleikaferðalag með haustinu til að fylgja eftir hinni nýútkomnu plötu Mexíkó. Einn af forsprökkum sveitarinnar Stephan Stephensen, einnig þekktur sem President Bongo, fer ekki með í ferðalagið.

„Hann ætlar að taka sér frí að minnsta kosti fram að jólum,“ segir Þorsteinn Stephensen, umboðsmaður Gus Gus og bróðir Stephans. „Við erum að fara í mjög þéttan túr um öll Evrópulöndin, langt ferðalag um Rússland, Pólland og síðan Bandaríkin og Mexíkó.“

Þetta er fyrsta tónleikaferðalag Gus Gus sem Stephan tekur ekki þátt í, en hann er einn af upprunalegum meðlimum sveitarinnar sem hóf störf árið 1995. „Hann vildi bara taka sér pásu held ég,“ segir umboðsmaðurinn. „Sem er náttúrulega allt í góðu þar sem við fengum gamlan Gus Gus-meðlim til þess að stökkva inn í fyrir Stebba.“ 

Maggi Legó kemur sterkur inn í stað Stephan.mynd/aðsend
Það mun vera tónlistarmaðurinn Magnús Guðmundsson, Maggi Legó, sem fyllir upp í skarðið í tónleikaferðalaginu, en hann er einnig upprunalegur meðlimur sveitarinnar en hefur ekki verið með síðan árið 2007. 

„Hann kann þetta allt saman og það er bara gaman að þessu en síðan hugsa ég að Stebbi komi aftur inn fyrir áramót,“ segir Þorsteinn.

Ekki er vitað nákvæmlega hvað Stephan ætlar að taka sér fyrir hendur í haust. „Hann er náttúrulega með fjalla- og siglingabakteríu á háu stigi,“ segir bróðir hans og hlær. „Ég held að hann langi til þess að sýna því meiri áhuga.“

Hvorki Stephan né Maggi vildu tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×