Lífið

Leaves endurvinnur lagið Breathe

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Fimmtán ár eru liðin frá því að hljómsveitin Leaves gaf fyrst út lagið Breathe. Sú útgáfa hafði töluverð áhrif á líf Arnars Guðjónssonar og félaga hans í hljómsveitinni en sveitin náði á krafti lagsins strax athygli erlendra plötufyrirtækja. Stuttu síðar gerði Leaves sinn fyrsta útgáfusamning við erlent plötufyriræki en þeir áttu eftir að verða fleiri á ferli sveitarinnar.

Í dag fagnar sveitin afmæli lagsins með því að gefa út splunkunýja útgáfu af því sem fáanleg verður á öllum helstu tónlistarveitum og á Youtube.

Nýju útgáfuna má heyra hér fyrir ofan.

Afslappaðri útgáfa

„Þetta er fyrsta lagið sem ég samdi en hljómsveitin varð eiginlega til í framhaldinu á þessu lagi,“ segir Arnar. „Þetta lag setti svolítið tóninn um það sem ég fór svo að gera næstu árin sem fylgdu.“

Nýja útgáfan er nokkuð lágstemmdari en sú fyrri en nálgunin er þó nokkuð ólík gömlu útgáfunni.

„Þessi er aðeins afslappaðri. Þegar ég bar þessa útgáfu saman við þá gömlu þá brá mér hvað hin var stressaðri. Það er misjafnt hvernig maður nálgast hlutina á hverjum tíma.“

Þetta er í þriðja skiptið sem Leaves hljóðritar þetta lag. Fyrsta útgáfan kom út sem smáskífa en svo var hljóðrituð önnur útgáfa fyrir fyrstu breiðskífu sveitarinnar erlendis.

„Önnur ástæða fyrir því að ég vildi hljóðrita þetta lag aftur er að það er mjög erfitt að finna gömlu útgáfurnar á netinu. Þau eru ekki inn á Spotify og við eigum ekki réttindin á gömlu hljóðupptökunum. Við megum því ekki vera að dreifa þeim sjálfir. Þannig að núna er þá komin útgáfa sem við getum gert það við sem við viljum.“

Von á meiru frá Leaves

Leaves er enn starfandi þó lítið hafi farið fyrir hljómsveitinni síðustu mánuði. Í fyrra fór hljómsveitin í tónleikaferð um Kína og Arnar tekur ekki fyrir það að hljómsveitin spýti í lófana í kjölfar afmælisins. Arnar tekur heldur ekki fyrir að Leaves muni hljóðrita fleiri eldri lög upp á nýtt til þess að gera aðgengileg á netinu.

Liðsmenn Leaves eru uppteknir við hina ýmsu hluti. Arnar er þessa daganna að stýra upptökum á nýrri breiðskífu Ham með því að vinna eigin sólóplötu. Hljómsveitin Náttfari, sem inniheldur einnig liðsmenn Leaves, er svo að undirbúa útgáfu nýrrar plötu.

Eldri útgáfu lagsins Breathe má svo heyra hér fyrir neðan vilji menn gera samanburð.


Tengdar fréttir

Gulli Briem fagnar plötunni Liberté

Hljómsveit trommuleikarans Gulla Briem, Earth Affair, fagnar útgáfu plötunnar Liberté sem kom út nýlega, með glæsilegum útgáfutónleikum í Gamla bíói 20. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×