Fótbolti

Laurent Blanc: Ibra elskar svona leiki og efast aldrei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Vísir/Getty
Franska liðið Paris Saint-Germain er í erfiðri stöðu í seinni leik sínum á móti Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Barcelona vann fyrri leikinn 3-1 í Frakklandi og PSG þarf því að skora þrjú mörk á Nývangi í kvöld ætli liðið að eiga möguleika á því að komast áfram í undanúrslitin.

„Ég er raunsær maður og þetta er einstaklega erfitt verkefni. Við höfum samt engu að tapa. Við verðum að skora mörk og ég trúi því innilega að við getum það," sagði Laurent Blanc, þjálfari PSG, í viðtali við Le Parisien.

Sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic kemur nú aftur inn í liðið eftir að hafa tekið út leikbann í fyrsta leiknum.

„Hann hefur mikil áhrif. Hann elskar svona leiki og efast aldrei. Hann er mjög góður leikmaður og öflugur markaskorari sem er mikilvægur fyrir hvaða lið sem er," sagði Blanc.

„Ibra fékk frídag eftir úrslitaleikinn í deildabikarnum en hefur síðan æft á hverjum degi. Hann er í mjög góðu formi og ég er búinn að endurheimta sama leikmann og við vorum með í fyrra," sagði Blanc.

Zlatan Ibrahimovic hefur verið mjög sigursæll á sínum ferli en hann hefur aldrei unnið Meistaradeildina.

Leikur Barcelona og Paris Saint-Germain hefst klukkan 18.45 í kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×