Innlent

Landvernd nýtti ekki færi til mótmæla

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Páll Gíslason segir Fannborg hafa selt gistingu í uppbúnum rúmum í tveggja manna herbergjum í tíu ár.
Páll Gíslason segir Fannborg hafa selt gistingu í uppbúnum rúmum í tveggja manna herbergjum í tíu ár. Mynd/Batteríið Arkitektar
Arineldur á að gleðja gesti Hótels Kerlingarfjalla. Mynd/Batteríið
Páll Gíslason, framkvæmdastjóri Fannborgar ehf., sem byggir nú hótel í Kerlingarfjöllum, segir ekki hægt að sjá að Landverndarmenn skilji eðli umhverfismats.

„Um þá vinnu gilda lög og þar er skýrt tekið fram í fyrstu grein að umhverfismati sé ætlað að meta áhrif framkvæmdar á gefna umhverfisþætti og þörf á mótvægis­aðgerðum framkvæmda, ekki að framkvæmdin sem slík sé til umræðu eða mats,“ segir Páll sem er ósáttur við kærur Landverndar vegna byggingar 120 herbergja hótels Fannborgar í Kerlingarfjöllum. Er hótelið verður fullbyggt býður Fannborg 342 gistirými á staðnum.

Landvernd kærði Skipulagsstofnun í fyrrasumar fyrir að heimila byggingu fyrsta áfanga af þremur við hótelið án undangengins umhverfismats. Samtökin kærðu síðan Hrunamannahrepp í mars á þessu ári fyrir að gefa út byggingarleyfi fyrir hótelinu. Krafa var gerð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála á eftir að úrskurða.





Páll Gíslason, framkvæmdastjóri Fannborgar ehf.


„Formaður Landverndar segir að á þeim bæ hafi mönnum ekki verið ljóst fyrr en í febrúar á þessu ári að framkvæmdir voru hafnar. Við bendum á að á fundi í ágúst í fyrra gerði ég þeim grein fyrir að framkvæmdir væru hafnar og Landverndarmenn buðu þá að draga kæruna til baka gegn stöðvun framkvæmda,“ segir Páll.

Þá vitnar Páll til þeirra orða Snorra Baldurssonar, formanns Landverndar, í Fréttablaðinu 26. apríl síðastliðinn að það hafi verið „bjánalegt“ af Skipulagsstofnun að gefa heimild til að byggja fyrsta áfanga hótelsins án þess að gert yrði umhverfismat því þá væri orðið mjög erfitt að hætta við framkvæmdina.

„Á móti vekjum við athygli á því að Landverndarmenn hafa ekki nýtt sér þau tækifæri til mótmæla, sem þessi ferli bjóða upp á,“ segir Páll.

Í Fréttablaðinu fyrir átta dögum var sagt frá bókun sveitarstjórnar Hrunamannahrepps um að kæra Landverndar virtist „vera til þess eins fallin að valda sveitarfélaginu og hagsmunaaðilum á svæðinu tjóni“, eins og segir í bókuninni.

„Í ljósi þess að seinni kæran er sett fram löngu eftir að Landvernd er ljóst að vinna við umhverfismat er hafin og að hún beinist ekki gegn Skipulagsstofnun, þá er nánast útilokað að halda því fram að henni sé ekki ætlað að valda ónauðsynlegum skaða,“ segir Páll Gíslason.

 Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 4.maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×