Íslenski boltinn

Landsliðskonur á skotskónum í Pepsi-deild kvenna í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir.
Hólmfríður Magnúsdóttir. Vísir/Eyþór
Landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir tryggði KR dýrmæt þrjú stig í Vesturbænum í leik liðanna í Pepsi deild kvenna í kvöld en það gerði hún með því að skora bæði mörk KR-liðsins í 2-1 sigri á FH. Breiðablik vann Fylki 2-0 á sama tíma.

Hólmafríður Magnúsdóttir skoraði fyrra mark sitt á 43. mínútu eftir aukaspyrnu frá Katrínu Ómarsdóttur en það seinna skoraði Hólmfríður síðan á 72. mínútu.

Megan Dunnigan minnkaði muninn fyrir FH sex mínútum eftir seinna mark Hólmfríðar en nær komst Hafnarfjarðaliðið ekki að fá eitthvað út úr þessum leik.

KR-konur eru búnar að endurheimta Katrínu Ómarsdóttur og tefla nú fram fullskipuðu liði. Það hefur skilað þeim sex stigum af sex mögulegum í fyrstu tveimur leikjum liðsins eftir EM-fríið.

Mörk frá landsliðskonunum Rakel Hönnudóttur og Ingibjörgu Sigurðardóttur með sjö mínútna millibili í fyrri hálfleik tryggði Blikum 2-0 sigur á Fylki í Árbænum.

Fylkisliðið náði óvæntu jafntefli á móti toppliði Þór/KA á útivelli í fyrsta leik eftir EM-frí og í fyrsta leik sínum undir stjórn Hermanns Hreiðarssonar. Liðið hefur ekki náð að fylgja þessu eftir og hefur nú tapað tveimur heimaleikjum í röð.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×