Fótbolti

Lahm: Sáum eftir 7-1 rústinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Liðsfélagarnir Thomas Müller og Philipp Lahm taka því rólega á golfvellinum í sumarfríinu sínu.
Liðsfélagarnir Thomas Müller og Philipp Lahm taka því rólega á golfvellinum í sumarfríinu sínu. Vísir/Getty
Philipp Lahm, fyrurm fyrirliði þýska landsliðsins, útilokar að hann muni einn daginn snúa aftur í liðið en hann gaf það út eftir sigur Þjóðverja á HM í fyrra að hann væri hættur.

Lahm er einungis 31 árs gamall og er í lykilhlutverki hjá félagi sínu, Bayern München. Hann stendur við ákvörðun sína og segir að hún hafi verið rétt.

„Þeir sem þekkja mig vita að þegar ég tek ákvörðun er hún endanleg,“ sagði Lahm í viðtali við France Football. „Það var ekki til betra tilefni til að hætta en eftir sigur á Argentínu í úrslitaleik HM á Maracana-leikvanginum.“

„Einkalífið mitt er mikilvægara en fótboltaferillinn. Það voru stærri stundir þegar synir mínir fæddust en að vinna HM. Ég saknaði fjölskyldu minnar þær sex vikur sem ég var í burtu. Nú fáum við meiri tíma saman.“

Þýskaland vann gestgjafa Brasilíu á ótrúlegan máta á HM í fyrra en þeir þýsku skoruðu þá sjö mörk gegn einu. Lahm man vel eftir þeirri tilfinningu að missa af úrslitaleik HM á heimavelli eftir að Þýskaland tapaði fyrir Ítalíu í undanúrslitum HM 2006.

„Ég veit hvernig þeim leið eftir leikinn. Það var líka hræðileg tilfinning að falla úr leik þegar Þýskaland tapaði árið 2006.“

„Það er engin miskunn í fótbolta en við sáum eftir því að hafa rústað gestgjöfunum eins og við gerðum þennan dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×