Lífið

Læknisfræðin er fjölskyldusportið

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Þau Guðmundur Dagur, Unnar Óli og Berta Guðrún geta eflaust samnýtt skólabækurnar enda öll í sama náminu.
Þau Guðmundur Dagur, Unnar Óli og Berta Guðrún geta eflaust samnýtt skólabækurnar enda öll í sama náminu. MYND/Úr einkasafni
„Það mætti segja að læknisfræðin sé fjölskyldusportið,“ segir Unnar Óli Ólafsson, sem á dögunum fékk þær fregnir að hann hefði komist inn í læknisfræði í HÍ.

Það sem meira var, yngri systir hans, Berta Guðrún, komst einnig inn. Allt í allt voru tæplega 300 sem þreyttu prófið og 49 sem komust inn.

Unnar segir það létti að hafa komist inn, enda læknisfræði lengi verið draumurinn. Hann segir engan ríg á milli systkinanna.

„Við lærðum saman fyrir prófið allt þetta ár og hjálpuðumst að. Það er mjög gaman að við skyldum bæði komast inn og verða bekkjarsystkini næstu árin,“ segir Unnar, sem reiknar fastlega með að þau verði leið hvort á öðru þegar líða tekur á.

Unnar Óli og Berta Guðrún eru ekki þau einu í fjölskyldunni sem áttu þann draum að verða læknar. Eldri bróðir þeirra, Guðmundur Dagur, er að fara á sitt fjórða ár í læknisfræðinni og faðir þeirra, Ólafur Ó. Guðmundsson, starfar sem geðlæknir.

„Mamma er lyfjafræðingur svo hún lifir af matarboðin. Það sama verður kannski ekki sagt um aðra,“ segir Unnar og hlær, og bætir við að hagstæðast væri ef öll systkinin færu hvert í sína sérgrein.

„Það væri skemmtilegt þótt ég sé ekki farinn að hugsa svo langt, enda rétt kominn inn. En það verður skoðað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×