Innlent

Læknir um eyrnakerti: "Ósigur skynseminnar“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Björn Geir segir að eyrnakerti virki ekki og bendir á niðurstöður vísindarannsókna máli sínu til stuðnings.
Björn Geir segir að eyrnakerti virki ekki og bendir á niðurstöður vísindarannsókna máli sínu til stuðnings.
„Eyrnakerti eru hvorki virk né hættulaus. Þau soga ekki einu sinni merg, hvað þá annað.



Sala þeirra og notkun fer enn fram á Íslandi þó víða um heim sé varað er við notkun þeirra vegna slysahættu og gagnsleysis.



Loforð um gagn og virkni í auglýsingum eru ýmist upplogin eða stórlega ýkt og væntanlega brot á lögum um neytendakaup (15. og 16. gr.), þjónustukaup (5. og 9. gr.) og sennilega fleiri laga- og reglubókstöfum.“



Þetta skrifar Björn Geir Leifsson skurðlæknir, á bloggsíðu sína, í umfjöllun um svokölluð Eyrnakerti. Sala á slíkum kertum fer fram hér á landi og bendir Björn Geir á nokkra söluaðila í umfjöllun sinni. Hann segir kertin ekki sjúga merg, eins og auglýsendur halda fram.

Eyrnakerti eru mjög einföld að gerð. Pappír eða tuska er bleytt upp í bráðnu vaxi og snúið utanum sívala stöng og látið stirðna. Þannig verður til holt "kerti". Gjarnan er eitthvað ilmefni haft með til að styrkja dásamlegheitin,“segir hann og bætir síðar við: 

Auðvitað gera huggulegheitin og slökunin sitt tímabundna gagn en það má alveg koma því til leiðar án þess að nota svona kerti.

Í fyrsta lagi þá myndast ekkert sog. Þetta hafa margir prófað  á ýmsan hátt og komist að því að það er  hreinlega ekki rétt.

Í öðru lagi þá er "drullan" sem safnast inni í kertinu hvorki eyrnamergur eða dularfull toxín eða úrgangsefni úr líkamanum. Þetta er einfaldlega storknað vax úr kertinu sjálfu með smá sóti í sem litar það brúnleitt eins og eyrnamerg. Prófið bara að brenna svona kerti án þess að hafa það í eyranu.

Það er enginn möguleiki að eyrnakerti nái að soga eyrnamerg úr eyrunum á þennan hátt. Til þess þyrfti svo mikið sog að það gæti rifið hljóðhimnuna,“ skrifar Björn Geir.

Hann tiltekur svo fleiri rök fyrir því að eyrnakertin svokölluðu virki ekki og bendir á söluaðila:

„Í þriðja lagi þá er enginn samgangur milli ytra eyrans og annarra holrúma höfuðsins. Sá (hómeópati?) sem skrifaði um "virkni" eyrnakerta á vef Heilsuhvols hefur væntanlega sofið fast í líffræðitímunum í barnaskóla. Ef gat eða rör er í hljóðhimnunni er reyndar til staðar op inn í miðeyrað en það breytir engu öðru en því að reykur og sót getur þá hugsanlgea borist inn í mjög viðkvæmt holrúm. Ekki sérlega hræsilegt það.

Í fjórða lagi þá er það hreinn uppspuni að eyrnakerti hafi verið notuð um aldir af Hopi indjánum. Auglýsingar Biosun og Heilsuhvols eru gjarnan skreyttar með indjánamálverki sem á að sýna slík kerti í hendi eins þeirra og því haldið fram að þetta sé aldagömul iðja hjá þessum indjánum. Það sem hann heldur á á myndinni eru fjaðrir. Talsmaður Hopi indjánaættbálksins hefur skriflega borið þessa vitleysu til baka í bréfi sem finna má hér.“

Björn Geir segir að notkun kertanna geti beinlínis verið skaðleg: „Bráðið vax drýpur niður í kertið innanvert eins og áður er lýst og tilfelli hafa komið upp þar sem fólk hefur brennst illa inni í ytra eyranu, fyllt það af storknu vaxi og jafnvel brennt gat á hljóðhimnuna.“ Hann bendir á erlendar greinar um það hvernig eyrnakertin geti valdið skaða. Önnur greinin birtist í tímariti lækna í háls-, nef og eyrnalækningum. Í niðurstöðum tilraunar sem þar er vísað til kom í ljós að hol kerti sugu engan merg úr eyrum þátttakenda í rannsókninni og í einum sjötta tilfella sköðuðu kertin þá sem prófuðu þau.

Læknirinn bendir einnig á að kanadísk yfirvöld vara við notkun eyrnakerta.

Hér að neðan má sjá eitt þeirra myndbanda sem Björn Geir bendir lesendum sínum á. Í því eru eyrnakerti prófuð án þess að setja þau upp við eyra og þar kemur í ljós að efni sem líkist eyrnamerg myndast inni í kertinu á meðan það brennur. Í annari tilraun sést að kertið, sem notað er í myndbandinu, sogar ekkert upp, en auglýsendur halda því fram að kertin geti sogið upp merg, eins og Björn Geir bendir á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×