Lífið

Lá við að mig svimaði

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Auðvitað er oft einhver forystusauður en ég lít á þetta sem viðurkenningu til okkar allra sem höfum unnið að söfnuninni,“ segir Skagamaður ársins 2014, Steinunn Sigurðardóttir.
„Auðvitað er oft einhver forystusauður en ég lít á þetta sem viðurkenningu til okkar allra sem höfum unnið að söfnuninni,“ segir Skagamaður ársins 2014, Steinunn Sigurðardóttir. Mynd/Myndsmiðjan sf.
„Mér kom valið svo á óvart að það lá við að mig svimaði. Þó sat ég,“ segir Steinunn Sigurðardóttir, fyrrverandi hjúkrunarframkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, um viðbrögð sín við því að vera kjörin Skagamaður ársins 2014.

Útnefninguna hlaut hún á þorrablóti á Akranesi síðasta laugardag. Auk blómaskreytingar frá versluninni Model fékk hún Sögu Akraness og málverk eftir Bjarna Þór myndlistarmann að gjöf.

„Málverkið sýnir gamla sjúkrahúsið á Akranesi eins og það var þegar ég kom hingað fyrst 1972 og fremst á myndinni er kona, ég álít að það sé ég sjálf að taka mín fyrstu skref í hjúkrun,“ segir Steinunn glaðlega.

Viðurkenninguna fékk Steinunn fyrir störf sín í þágu heilbrigðisþjónustu á Vesturlandi og þrautseigju við öflun fjár til kaupa á nýju sneiðmyndatæki.

„Þó ég sé bráðung kona er ég komin á 95 ára regluna og þegar ég hætti að vinna hét ég því að gangast fyrir stofnun Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sem nær frá Akranesi norður á Hólmavík og Hvammstanga. Fékk með mér fjóra röska einstaklinga og samtökin urðu til fyrir nákvæmlega einu ári.

Mjög fljótlega var ákveðið að fá fólk í lið með okkur og kaupa sneiðmyndatæki. Það er rúmlega 40 milljón króna dæmi. Með okkur eru almenningur, fyrirtæki og félagasamtök á svæðinu, auk þess sem ráðuneytið kemur inn í,“ lýsir Steinunn og segir tækið vonandi verða afhent á þessu ári.

Steinunn kveðst upphaflega vera Reykvíkingur en hafa komið til Akraness sem nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur og bara ætlað að vera þar í þrjá mánuði. En örlögin tóku í taumana.

„Ég hitti manninn minn og hef verið hér óslitið í 43 ár, nema hvað ég var í Danmörku í tvö ár fyrir næstum 40 árum, að vinna og í framhaldsnámi.“ Hún á 12 ára setu í bæjarstjórn Akraness að baki og nær 30 ár sem hjúkrunarforstjóri. Nú sinnir hún ráðgjafastörfum þegar eftir því er leitað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×