Innlent

Kvartað yfir samskiptaleysi eftir 16 tíma töf á flugi WOW Air frá Berlín

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Farþegar voru ekki ánægðir með upplýsingaflæði frá flugfélaginu.
Farþegar voru ekki ánægðir með upplýsingaflæði frá flugfélaginu. vísir/vilhelm
Miklar tafir hafa orðið á farþegaflugi til Keflavíkur í dag og í nótt, ef marka má tíst á Twitter síðu Fanneyjar Birnu Jónsdóttir, fjölmiðlakonu, þar sem kemur fram mikil seinkun hafi orðið á flugi hennar með WOW Air, til Keflavíkur, frá Berlín.

Flug Fanneyjar átti að fara frá Berlín klukkan 11:25 í gærnótt, en hefur nú verið frestað til klukkan 15:30 í dag. Miðað við upplýsingar Keflavíkurflugvallar er reiknað með að flugvélin lendi klukkan 19:00 að íslenskum tíma.

Í tístum Fanneyjar kemur fram að flugi hennar hafi verið seinkað um þrjá tíma, áður en því hafi verið seinkað aftur, eftir að farþegar voru komnir um borð í vélina.

Loks hafi fluginu verið frestað í ótilgreindan tíma, en kvartar Fanney yfir því að engar upplýsingar hafi borist farþegum, þar til að staðfest hafi verið að fluginu yrði seinkað um 16 tíma.

Af tístum Fanneyjar má ráða að farþegar séu óánægðir með samskiptaleysið.

Ljóst er að fleiri farþegar WOW Air eru í vandræðum, en á Twitter síðu þeirra má sjá að farþegar sem eru á leið frá Montreal til Amsterdam, kvarta sáran yfir því að flugi þeirra hafi verið aflýst.

Í svörum til farþega á Twitter, bendir flugfélagið á atvikið sem varð á Keflavíkurflugvelli í gær, þar sem flugvél Primera Air rann út af flugbrautinni, svo að loka þurfti flugvellinum og fljúga aðkomandi flugvélum annað. Ljóst er að nokkrar tafir hafa orðið á farþegaflugi til Keflavíkur í morgun, vegna þessa. 

Ekki náðist í Svönu Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW Air, við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×