Innlent

Krónufólki stillt upp við vegg á landsfundi

Snærós Sindradóttir skrifar
Meirihluti sagði já á landsfundi Sjálfstæðisflokksins
Meirihluti sagði já á landsfundi Sjálfstæðisflokksins
Krónusinnuðum Sjálfstæðismönnum var stillt upp við vegg við afgreiðslu ályktunar á landsfundi í dag. Tillaga Efnahags- og viðskiptanefndar hljóðaði svo: „Íslenska krónan í höftum getur ekki verið framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar ef Íslendingar vilja eiga þess kost að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni. Rétt er að hafist verði handa við að undirbúa upptöku myntar sem er gjaldgeng í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar. Með því að leggja krónuna niður gefst landsmönnum og fyrirtækjum í raun algert frelsi að ákveða hvaða gjaldmiðill hentar þeim best.“

Nokkur styr var um tillöguna fyrirfram á fundinum og svo fór að við upphaf umræðna um hana steig formaður nefndarinnar í pontu og lagði fram málamiðlunartillögu sem hljóðaði svo: „Kanna skal til þrautar upptöku myntar sem gjaldgeng er í alþjóðaviðskiptum í stað íslensku krónunnar og gefa landsmönnum og fyrirtækjum frelsi til að ákveða hvaða gjaldmiðill hentar þeim best.“

Fundarmenn höfðu þá val um frumtillöguna eða vægari málamiðlunartillögu sem samt gerði ráð fyrir að kanna upptöku annarrar myntar.

Umræður voru í lágmarki um þessa tillögu. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og fjármálaráðherra, steig í pontu og sagðist styðja málamiðlunartillöguna en hann var samt myrkur í máli: „Menn skulu ekki gleyma því að ef menn taka upp aðra mynt og hafa ekki aðra lánveitendur til þrautavaða, hver ætlar þá að koma mönnum til aðstoðar?“

Málamiðlunartillagan var samþykkt með örfáum mótatkvæðum. Heimildir Vísis herma að búið hafi verið að ganga frá þessari málamiðlun á bak við tjöldin í gær svo ekki færi allt í háa loft á fundinum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×