Innlent

Krökkunum þykir nú töff að lesa bækur

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Nemendur í sjötta bekk í Grandaskóla heimsóttu Odda ásamt Gunna Helga rithöfundi. Þar sáu þeir bók rithöfundarins koma út úr prentvélunum.
Nemendur í sjötta bekk í Grandaskóla heimsóttu Odda ásamt Gunna Helga rithöfundi. Þar sáu þeir bók rithöfundarins koma út úr prentvélunum. MYND/GRÍMUR KOLBEINSSON
„Ég varð þungt hugsi þegar niðurstöður PISA-könnunarinnar komu og ég velti því fyrir mér hvað ég gæti gert sem foreldri og sem starfsmaður í bókaforlagi,“ segir Þórhildur Garðarsdóttir, fjármálastjóri hjá Forlaginu. Hún fékk þá hugmynd að kynna fyrir nemendum í sjötta bekk í Grandaskóla, þar sem hún á sjálf barn, hvernig bók verður til með aðstoð starfsmanna forlagsins, rithöfunda og prentsmiðju.

„Ég bar upp hugmyndina við skólastjórnendur í maí í fyrra og þeir tóku strax mjög vel í hana og sögðust ætla að fella þetta inn í kennsluna. Verkefnið byrjaði í október síðastliðnum og hefur verið í gangi síðan. Það er æðislegt að sjá að menntakerfið okkar geti verið svona sveigjanlegt. Nú eru krakkarnir að skrifa bók þar sem hver og einn verður með sína sögu og ætlar Oddi að prenta bókina fyrir þau.“

Þórhildur Garðarsdóttir
Að sögn Þórhildar kom ritstjóri frá Forlaginu í heimsókn til nemenda og sagði þeim frá samvinnunni við rithöfunda. „Höfundar sem komu í heimsókn greindu frá því hvernig þeir fengju hugmyndir og sögðu einnig frá því að þeir fengju handritið til baka frá ritstjóra bókaforlagsins síns og þyrftu að leggjast í leiðréttingar eins og til dæmis að stytta og breyta orðalagi. Krökkunum fannst það mjög áhugavert og einn kennarinn þeirra sagði mér að þetta hjálpaði henni við að láta krakkana skilja að þau þyrftu að fara aftur yfir ritgerðir og laga eftir að kennarinn gerði athugasemdir en það hafði verið erfitt að fá þau til þess. Hönnuðir komu í heimsókn í skólann og fóru meðal annars yfir það hvernig bókakápur eru gerðar og tóku dæmi um hversu margar tillögur geta legið að baki lokagerðinni.“

Þórhildur segir það vera draum sinn að fleiri skólar taki þátt í svona verkefni. „En þeir þyrftu þá að sækja um þátttöku því að það þarf að vera fullur vilji hjá þeim til þess. Kennarar þurfa að leggja mikið á sig en auk umsjónarkennara koma að verkefninu íslenskukennari, myndmenntakennari og tölvufræðikennari.“

Í tengslum við verkefnið var efnt til sérstaks lestrarátaks hjá nemendunum sem stóð í þrjá mánuði, frá október og út desember. „Að sögn kennara tóku allir krakkarnir framförum og allir juku lestrarhraða sinn, líka þeir sem voru hraðlæsir fyrir en það er víst ekki algengt þegar þau eru orðin svona gömul. Okkur tókst í raun það sem við stefndum að, það er að auka læsi þeirra.“

Virkja þurfti foreldra á ný í lestrarátakinu, að því er Þórhildur greinir frá. „Þeir tóku gríðarlega vel í þetta. Þeir þurftu að skrá fjölda blaðsíðna sem krakkarnir lásu heima og hversu lengi þeir lásu en almennt eru foreldrar ekki beðnir um slíkt eftir fjórða bekk.“

Þórhildur kveðst hafa verið með í öllum heimsóknum til krakkanna. „Stemningin var æðisleg og skólastjórnendur eru ánægðir með þetta verkefni sem hefur tekist vonum framar. Krakkarnir ræða mikið um bækur sín á milli og sýna áhuga á bókum sem þeir sjá auglýstar og eru að koma út. Það þykir núna „töff“ að lesa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×