Innlent

Krefst aðgerða strax í málefnum útigangsfólks

Atli Ísleifsson skrifar
„Hann sat þarna og skalf úr kulda, nánast grét og var að betla peninga og við þurftum að vísa honum þaðan í burtu en gátum ekki boðið honum neitt,“ segir lögreglukonan Margrét Þóra Birnir sem benti á í Facebook-færslu að útifólk eigi ekki í nein hús að venda í nokkrar klukkustundir um helgar.

„Við gátum ekki boðið honum inn í hlýju eða ekið honum á nokkurn stað því það er allt lokað á vissum tímum.“ Hún segir að í þessum hópi séu menn í of slæmu ásigkomulagi til að geta nýtt sér þau úrræði sem í boði eru. Margrét Þóra vill að að úr þessu verði bætt án tafar.

Margrét Þóra var í viðtali í Íslandi í dag fyrr í kvöld þar sem hún sagði meðal annars frá verkefni sem hún sinnti á laugardaginn um að vísa manni frá Kolaportinu sem var þar að betla. „Við fáum reglulega slík verkefni og oft náum við að leysa þau vel. Aka þeim þangað sem hægt er að bjóða þeim gistingu og annað slíkt. En þarna á laugardegi klukkan hálf fjögur eru engin úrræði í boði.“

Margrét Þóra segir að í þessu tilfelli hafi lögregla boðið manninum kaffi inni í Kolaporti og þau sammælst um að lögregla myndi reyna að sækja hann klukkan fimm þegar gistiskýlið opnaði aftur. Hún segir að verkefnastöðuna klukkan fimm hins vegar ekki hafa boðið upp á að þau sóttu manninn. „Ég veit ekki hvernig hann fór. Þessi tiltekni aðili á erfitt með gang og færðin þessa dagana ekki góð. Maður skilur stundum ekki hvernig þau koma sér fram og til baka. Þetta eru oft vegalengdir á milli þeirra húsnæða sem þeim stendur til boða.“

Eru þau oft illa búin?

„Mjög illa búin. Sokkalaus og í þunnum jökkum. Þunnum buxum. Stöku sinnum eru þau í kuldagöllum en því miður ekki alltaf.“

Þau athvörf sem standa útigangsfólki til boða eru öll með ákveðinn opnunartíma og eru ákveðnir tímar vikunnar þar sem ekkert stendur fólkinu til boða. „Það þarf að loka hringnum. Það má ekki vera klukkutími hér og þar þar sem ekkert er í boði. Það er skítkalt og menn hafa verið að láta lífið úti í kuldanum. Ég held að fólk almenn átti sig kannski ekki á því að það gerist alveg á Íslandi. Það gerist ekki bara í útlöndum. Mér finnst þetta vera eitthvað sem þarf að laga.

Sjá má viðtalið við Margréti Þóru í heild í spilaranum að ofan. Einnig er rætt við Vörð Leví Traustason, framkvæmdastjóra Samhjálpar, og Ingibjörgu Pálsdóttur sem hefur verið án heimilis í á annan mánuð og gistir í Konukoti á nóttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×