Íslenski boltinn

KR og ÍBV mætast fjórða árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason í baráttunni í deildarleik KR og ÍBV fyrr í sumar.
Pálmi Rafn Pálmason í baráttunni í deildarleik KR og ÍBV fyrr í sumar. Vísir/Vilhelm
Í hádeginu var dregið í undanúrslitum Borgunarbikars karla og kvenna í fótbolta. Bikarmeistarar KR í karlaflokki höfðu aftur heppnina með sér og fengu heimaleik en bikarmeistarar Stjörnunnar í kvennaflokki eru á útivelli í fyrsta sinn í bikarnum í sumar.

KR sló FH (topplið Pepsi-deildarinnar) út í átta liða úrslitunum og mætir nú ÍBV sem er í 11. sæti Pepsi-deildarinnar. KR hefur komist alla leið í bikarúrslitaleikinn fjórum sinnum á síðustu fimm árum.

Þetta verður fjórða árið í röð sem KR og ÍBV mætast í bikarnum en hinir þrír leikirnir voru á Hásteinsvelli í Eyjum og KR-ingar unnu þá alla þar af í undanúrslitunum í fyrra.

KR vann 2-1 í Eyjum í átta liða úrslitunum 2012 og 3-0 í Eyjum í átta liða úrslitunum 2013. KR vann síðan 5-2 sigur á Hásteinsvellinum í undanúrslitaleiknum í fyrra.

1. deildarlið KA fær heimaleik á móti Val í hinum leiknum en KA-menn hafa þegar slegið út Pepsi-deildarliðin Breiðablik og Fjölni. Öll þessi lið eru í efti hluta Pepsi-deildarinnar. Valur og KA hafa bæði beðið í áratug eða meira eftir því að spila í undanúrslitunum, Valur frá 2005 og KA frá 2004.

Bikarmeistarar Stjörnunnar í kvennaflokki fá útileik á móti Fylki í Árbænum en Fylkiskonur hafa aldrei komist í úrslitaleikinn.

Selfoss fær heimaleik á móti Val eða KR sem þýðir að Stjarnan og Selfoss geta mæst í úrslitaleiknum annað árið í röð.

Undanúrslit Borgunarbikars karla 2015:

KR - ÍBV

KA - Valur

Undanúrslit Borgunarbikars kvenna 2015:

Selfoss - Valur/KR

Fylkir - Stjarnan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×