Innlent

Kortleggja Reykjanesið með 84 jarðskjálftamælum

Svavar Hávarðsson skrifar
Mælarnir eru dýr og sérhæfð tæki, fengin frá þýskum tækjabanka. Stykkið kostar 10 til 12 milljónir króna.
Mælarnir eru dýr og sérhæfð tæki, fengin frá þýskum tækjabanka. Stykkið kostar 10 til 12 milljónir króna. Mynd/Philippe Jousset
„Reyndar rak einn mælinn upp í fjöru á Mýrunum, og tveir hafa komið upp í veiðarfærum sjómanna. Aðrar truflanir hafa ekki orðið,“ segir Ögmundur Erlendsson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR), um framgang fjölþjóðlegs rannsóknarverkefnis við kortlagningu jarðhitakerfisins við Reykjanes.

Tilgangurinn er að þróa nýjar aðferðir til að rannsaka jarðhitakerfi. Vonir standa til að því loknu að fá sem besta mynd af svæðinu og fá upplýsingar úr dýpri jarðlögum en nú eru fyrir hendi. Þetta gætti leitt til þess að staðsetning borhola verði markvissari og árangursríkari.

Í sumarlok kom hópur jarðvísindamanna frá ÍSOR og jarðvísindastofnuninni GFZ (GeoForsch­ungZentrum) í Þýskalandi fyrir 24 jarðskjálftamælum á hafsbotni allt í kringum Reykjanes. Verkið var unnið í samstarfi við HS Orku. Auk þeirra var í sumar komið fyrir 30 mælum á landi. Þá hefur ÍSOR undanfarin tvö ár komið fyrir níu jarðskjálftamælum á vinnslusvæði HS Orku. Veður­stofa Íslands rekur sjö mæla og tékkneskir sérfræðingar hafa að auki sett niður 14 mæla. Allt í allt eru það því 84 mælar sem munu gefa upplýsingar sem nýttar verða í verkefninu.

„Þetta er gríðarstórt og metnaðarfullt verkefni sem nýtist öllum jarðfræðiheiminum. Þær þjóðir sem eru með okkur hafa ekki þessar náttúrulegu aðstæður sem hér eru. Svo á móti kemur að við höfum ekki tólin og tækin sem þeir hafa, svo þetta tvinnast vel saman,“ segir Ögmundur.

Mælarnir sem fara í sjó eru dýr og sérhæfð tæki; hver þeirra vegur um 500 kíló og kostar á bilinu tíu til tólf milljónir króna. Verkefnið er styrkt af 7. rammaáætlun ESB og er heildarstyrkurinn rúmir 1,5 milljarðar króna. Þar af er styrkupphæð til Íslands um 250 milljónir. Alls eru 19 þátttakendur í verkefninu, þar af þrír frá Íslandi; ÍSOR, HS Orka og Landsvirkjun. Reykjanesið, Krafla og Geitafell við Hornafjörð verða athugunarsvæðin hér á landi og hliðstæð svæði erlendis eru ítölsku jarðhitasvæðin Larderello og eyjan Elba og Tenerife á Kanaríeyjum.

Að sögn Ögmundar er stefnt að því að mælarnir liggi í sjó í eitt ár, en verkefnið mun standa lengur, eða í allt að því þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×