Innlent

Konur á verri kjörum en karlar allt lífið

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM vill ráðast að rótum vandans sem hún segir kerfisvanda. Hún vill skýringar um aukinn launamun hjá Sambandi sveitarfélaga og ríki.
Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM vill ráðast að rótum vandans sem hún segir kerfisvanda. Hún vill skýringar um aukinn launamun hjá Sambandi sveitarfélaga og ríki. Mynd/BHM
„Við munum leita svara hjá ríki og Sambandi íslenskra sveitarfélaga,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

Kynbundinn launamunur meðal félagsmanna BHM var 11,7 prósent árið 2015. Það sýna niðurstöður kjarakönnunar sem var gerð á vegum bandalagsins. Meðal svarenda sem störfuðu hjá ríki og öðrum sveitarfélögum en Reykjavíkurborg jókst kynbundinn launamunur milli kannana, en minnkaði á meðal svarenda sem störfuðu hjá Reykjavíkurborg og einkafyrirtækjum.

„Það sem veldur mestum vonbrigðum er að launamunur kynjanna er að aukast en ekki að minnka, og þá erum við að tala um leiðréttan launamun,“ segir Þórunn.

Sambærileg könnun sem var gerð í fyrra sýndi að kynbundinn launamunur var 9,4 prósent. Þá er átt við þann launamun sem eftir stendur þegar laun beggja kynja hafa verið uppfærð miðað við 100 prósent starf og leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum ýmissa þátta á heildargreiðslur, s.s. mismunandi starfshlutfalls og vinnustundafjölda, menntunar, aldurs og ábyrgðar í starfi.

„Ekki síður þarf að skoða óleiðréttan launamun sem er rétt tæplega 18 prósent, hann segir okkur meiri sögu um stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Þessi niðurstaða könnunar okkar veldur okkur miklum vonbrigðum,“ segir Þórunn.

„Þetta er kerfisvandi og hér eru stærstu vinnuveitendur á landinu, ríki og önnur sveitarfélög en Reykjavík, ekki að standa sig þegar kemur að því að meta fólk til starfa eða meta framgang í starfi. Það er skoðunarefni. Umfang vandans er það mikið að við erum að tala um mannréttindabrot. Þetta eru brot á lögum og það verður að taka á þeim á öllum vinnumarkaðnum,“ segir Þórunn og minnir á að vandinn sé ekki vandi kvenna.

„Þetta er vandi samfélagins, á endanum er það þannig að ævitekjur kvenna eru lægri en karla vegna misréttisins, þær fá lægri lífeyri og eru á verri kjörum allt lífið, þetta er risastórt samfélagsmál,“ segir Þórunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×