Innlent

Koma heim eftir átján mánuði á skútu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Myndin var tekin í hnattreisunni en þarna er skútan á Indlandshafi.
Myndin var tekin í hnattreisunni en þarna er skútan á Indlandshafi. MYND/SARAH BARTHELET
Seglskútan Hugur, fyrsta íslenska skútan sem hefur siglt umhverfis hnöttinn, mun koma til hafnar í Reykjavík í kvöld. Skútunni stýra hjónin Kristófer Oliversson og Svanfríður Jónsdóttir sem fóru í hnattsiglinguna í tilefni af sextugsafmæli sínu og 40 ára brúðkaupsafmæli, en hjónin hafa ferðast á skútunni síðan í nóvember 2014. Móttaka þeim til heiðurs verður haldin í húsnæði Siglingafélags Reykjavíkur í kvöld.

Hnattsiglingin var keppni á vegum World Cruising Club og tók 15 mánuði. Síðast tóku þau þátt í ARC plus sem tók þrjá mánuði. Undanfarið hafa þau svo siglt með þremur öðrum skútum frá Halifax til Grænlands og nú Íslands.

Ekki náðist í hjónin við vinnslu fréttarinnar en Anna Ólöf Kristófersdóttir, dóttir þeirra, segist gríðarlega stolt af foreldrum sínum.

„Ég hef sjálf unnið mikið við siglingar og þekki því til og veit að innan siglingasamfélagsins er þetta talið mikið afrek. Ég er rosalega spennt að fá þau heim,“ segir Anna og bætir við að það hafi gengið á ýmsu þessa 18 mánuði.

„Það hefur lekið hjá þeim, vélin hefur bilað, það hefur orðið rafmagnslaust og það hefur kviknað í,“ segir Anna sem fór í heimsókn til foreldra sinna um páskana og skemmti sér konunglega. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×