Innlent

Klórklúður í Vesturbæjarlaug

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Tilkynningu er komið fyrir í anddyrinu þegar barnalauginni er lokað.
Tilkynningu er komið fyrir í anddyrinu þegar barnalauginni er lokað.
Barnalaugin í Vesturbæjarlaug hefur meira og minna verið lokuð undanfarnar tvær vikur vegna klórmagnsins í lauginni sem hefur ekki náð að uppfylla skilyrði heilbrigðiseftirlitsins.

Hafliði Halldórsson, forstöðumaður Vesturbæjarlaugar, segir í samtali við Vísi að vandamálið sé til komið vegna bilunar í tölvukerfi, ein klórdælan hafi einfaldlega dottið út og því hafi tekið að vanta klór í barnalaugina. Unnið hefur verið að viðgerðum á síðustu dögum og búist er við að allt ætti að vera komið í samt lag í dag eða á morgun.

„Þetta er í raun nýtt vandamál í ljósi aukinnar aðsóknar. Gömlu tækin eru ekki að bregðast nógu vel við öllum mannfjöldanum,“ segir Hafliði og bætir við að þetta sé sérstaklega bagalegt í ljósi þess að barnalaugin sé sú mest notaða í Vesturbæjarlaug.

Ákveðið hafi verið að taka enga óþarfa áhættu og hefur barnalauginni því verið lokað þegar klórmagnið hefur farið niður fyrir lögbundna staðla. Ný og strangari reglugerð var samþykkt þess efnis árið 2012 og hafa fulltrúar heilbrigðiseftirlitsins haft vökult auga með þróun klórmagnsins allt frá því að bilana tók að gæta í klórdælunni þann 14. júlí.

Frá því að sólin fór að sýna sig í höfuðborginni hefur aðsóknin í laugina margfaldast og því hefur ekki bætt úr skák að klórinn brennur hraðar upp í blíðviðri. Hafa sólþyrstir sundlaugagestir því þurft að láta sér aðra potta laugarinnar nægja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×