Innlent

Keypti lyf á svörtum markaði til að berjast gegn sveppaveikindum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Guðmundur Ómarsson
Guðmundur Ómarsson
Guðmundur Ómarsson keypti sér HGH, vaxtarhormón, á götunni til að vinna bug á veikindum og verkjum sem hann fékk vegna myglusveppaeitrunar.

Mánaðarskammtur kostaði 150 þúsund krónur en hann gat ekki fengið lyfið uppáskrifað hjá lækni.

„Hormónakerfið var ónýtt vegna myglu. Testósterónskorturinn var gífurlegur, mér var alltaf kalt og alltaf slappur. Ég fékk testósterón í sprautuformi en líkaminn var svo veikur að hann tók ekki við sér. Læknar gátu ekki útskýrt þennan skort eða önnur einkenni hjá mér, ég fékk það viðmót að ég væri geðveikur.“

Guðmundur fór í blóðprufur reglulega og engin breyting varð þar til hann byrjaði að taka HGH. „Ég tók lyfið í mánuð og allt varð innan eðlilegra marka næstu mánuði á eftir.

Innkirtlasérfræðingur sá muninn svart á hvítu í blóðprufu fáeinum vikum eftir inntökuna. Ég get samt ekki fengið lyfseðil enda er það víst ógjörningur að fá þetta lyf. Nú er ég farinn að veikjast aftur og vil kaupa mér annan skammt. Þetta er dýrt en gerði kraftaverk fyrir mig og er hverrar krónu virði.“

Mikil frumuendurnýjun verður við inntöku á HGH sem getur aukið vöxt krabbameins til dæmis. „Það er fórnarkostnaður en ég var á þeim stað að ég hafði engu að tapa. Ég gat ekki unnið og fékk ekki skilning frá neinum í kringum mig. Hvorki læknum né aðstandendum. Ég held ég fái aldrei fulla heilsu en til að geta lifað nokkuð eðlilegu lífi þarf ég að fara þessa leið, enda ekki til neinar rannsóknir eða lyf handa sveppasjúku fólki. Og í raun lítill áhugi á því.“

Hvað er HGH?

Human growth hormone er vaxtarhormón manna og myndast í heiladingli okkar alla ævi. Hormónið örvar flutning amínósýra inn í frumur og myndun prótína úr þeim þar. Þannig veldur hormónið því að frumur vaxa og fjölga sér.

Hormónið örvar einnig vöxt beina og vöðva. Notkun er vel þekkt meðal íþróttamanna, en hefur verið bönnuð síðustu tuttugu ár, og

heiladingulsdverga. Einnig hefur verið haldið fram að vaxtarhormón megi nota sem yngingarlyf, það dragi úr líkamsfitu, bæti svefn, kynlíf, minni og sjón. Engar rannsóknir styðja þær staðhæfingar svo óyggjandi sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×