Innlent

Kemur ekki á óvart að þeir persónugeri umræðuna

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson segir fjárlagafrumvarpið vera aðför að launafólki.
Gylfi Arnbjörnsson segir fjárlagafrumvarpið vera aðför að launafólki. Vísir/Vilhelm
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að nokkrar staðreyndir í málflutningi forystu Alþýðusambandsins um nýtt fjárlagafrumvarp sé ekkert annað en útsnúningur og rangfærslur.

Alþýðusambandið hefur slitið samstarfi sínu við ríkisstjórnina og segir forseti sambandsins það ekki koma sér á óvart að forystumenn ríkisstjórnarinnar persónugeri umræðuna í sinn garð.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skrifaði í gærkvöld stuttan en harðorðan pistill á Facebook og vandar þar forystu Alþýðusambandins ekki kveðjurnar. Bjarni skrifar: „Nokkr­ar staðreynd­ir ASÍ eru ekk­ert annað en út­úr­snún­ing­ur og rang­færsl­ur. Maður gæti ætlað að það væru kosn­ing­ar framund­an inn­an ASÍ, svig­ur­mæl­in stig­magn­ast dag frá degi.“

Miðstjórn Alþýðusambandsins ályktaði um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í gær og kallar ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, Ríkisstjórn ríka fólksins. Stjórnvöld hafi lagt kapp á að auka ráðstöfurnartekjur best stæðu heimilia landsins langt umfram þau tekjulægri. Um þessa gagnrýni skrifar Bjarni:

„Er það svo að þegar Sam­fylk­ing­unni dett­ur „sniðugur“ frasi í hug þá er hann sjál­krafa pikkaður upp af for­manni ASÍ, sem fyrr­um hugði á fram­boð und­ir þeirra merkj­um.“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir ummæli fjármálaráðherra ekki koma sér á óvart. Það sé þekkt aðferð að persónugera umræðuna. „Ég ítreka það að það kemur ekki alveg á óvart, miðað við það sem við höfum séð á undanförnum mánuðum og síðan þessi ríkisstjórn tók við, og það verður þá að vera svo.“

Gylfi segir flokkana auðvitað velja hvernig þeir vilja fara í þessa umræðu. „En ég ítreka að þetta fjárlagafrumvarp er aðför að launafólki og það er auðvitað miður.“

Gylfi segir Alþýðusambandið vera búið að reyna í heilt ár að eiga samræður við ríkisstjórnina og reyna að sameinast um einhvern málefnagrunn sem gæti lagt grunn að einhverju samstarfi. „Það hefur ekki verið vilji ríkisstjórnarinnar að fara eftir því og þess vegna hefur þessu verið slitið. Okkur er boðið til samstarfs að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki áhugi á því í Alþýðusambandinu að framfylgja stefnu þessarar ríkisstjórnarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×