Körfubolti

Kári lét rigna þristum fyrir framan fjölskylduna | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Jónsson fór á kostum í nótt.
Kári Jónsson fór á kostum í nótt. mynd/drexel
Körfuboltamaðurinn ungi, Kári Jónsson, fór hamförum fyrir lið sitt Drexel Dragons í bandarísku háskólakörfunni í nótt þegar hans menn unnu heimasigur á William & Mary-háskólanum, 79-61.

Þessi magnaða skytta, sem fór með Haukum í lokaúrslit Domino´s-deildarinnar síðasta vor, skoraði sex þriggja stiga körfur í tólf tilraunum og var stigahæstur Drexel-manna með 23 stig. Hann var tveimur þriggja stiga körfum frá metinu sínu en fyrr á leiktíðinni skoraði hann átta þrista í einum og sama leiknum.

Fjölskylda Kára var á leiknum og fékk að sjá þristasýninguna með berum augum en Hafnfirðingurinn ungi hefur verið að standa sig frábærlega fyrir Drexel á tímabilinu. Liðið er búið að vinna níu leiki en tapa 17.

Þar sem Kári var með fjölskylduna úr Hafnarfirði í heimsókn rifjaði Twitter-síða Drexel-liðsins upp myndbandið frá því í desember þegar leikmenn þess reyndu að bera fram Hafnarfjörður.

Þeir hefðu alveg eins getað reynt við Eyjafjallajökul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×