Lífið

Kaffi og súkkulaði hittast í Kaffilaði

guðrún ansnes skrifar
Eigendur voru að vonum kátir. Frá vinstri: Kjartan Gíslason, André Úlfur Visage, Karl Viggó Vigfússon og Óskar Þórðarson.
Eigendur voru að vonum kátir. Frá vinstri: Kjartan Gíslason, André Úlfur Visage, Karl Viggó Vigfússon og Óskar Þórðarson. fréttablaðið/pjetur
„Í dag fögnum við nýja súkkulaðinu okkar, eða kaffilaðinu eins og það gæti verið kallað,“ segir Kjartan Gíslason, einn þeirra sem standa að baki súkkulaðiframleiðslunnar Omnom. Óhætt er að fullyrða að fullt hafi verið út úr dyrum þegar samstarfi Omnom og Reykjavík Roasters voru gerð gómsæt skil, en undanfarið hafa fyrirtækin tvö leitt saman hesta sína og búið til þetta kaffisúkkulaði. „Við höfum tekið okkur eitt ár í að þróa þessa tegund og fáum kaffibaunirnar okkar beint frá Níkaragva hjá Reykjavík Roasters, sem ristar þær. Svo mölum við þær og gerum kaffilaði úr þeim,“ útskýrir Kjartan kampakátur.

Aðspurður um muninn á súkkulaði með kaffibragði og kaffilaðinu svarar hann; „Við notum kaffibaunir, kakósmjör, hrásykur og mjólk í kaffilaðið, en ekki kakóbaunir eins og allajafna í súkkulaðigerð.“

Fögnuðurinn fór fram í húsnæði Reykjavík Roasters í Brautarholtinu. Til stendur að opna nýtt kaffihús þar í sumar en verið er að leggja lokahönd á leyfisveitingar og önnur formsatriði. „Það er þó ekki búið að opna almennilega, verkföllin spila svoleiðis þar inn í, en við leyfum okkur að gleðjast hér saman í kvöld,“ segir Kjartan.

Uppfært: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var fyrir mistök sagt að fögnuðurinn hafi verið haldinn vegna opnunar Reykjavík Roasters í Brautarholti. Það er hins vegar ekki rétt, fögnuðurinn var einvörðungu til þess að fagna samstarfinu. Kaffihúsið opnar síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×