Skoðun

Kæri Jón - Bréf til borgarstjóra

Hulda Ásgeirsdóttir skrifar
Við erum að fara í gegnum ólgusjó og í því ljósi skiptir miklu að hafa réttsýnan og kjarkmikinn stjórnanda sem stýrir okkur á lygnan sjó.

Í Fréttablaðinu þann 5. mars sl. birtist eftir þig grein, þar sem þú talaðir um sameiningu leikskóla og vitnar í skólana sem ég stýri. Ég finn mig knúna til að leiðrétta grundvallarmisskilning í þeirri umræðu. Forsendurnar að sameiningu skólanna Tjarnarborgar og Öldukots voru allt aðrar en þær sem eru lagðar til grundvallar í þeim sameiningum sem nú standa fyrir dyrum.

Leikskólarnir Tjarnarborg og Öldukot voru sameinaðir til að taka þátt í tilraunaverkefni um samrekstur. Báðir leikskólarnir eru staðsettir í miðborginni, þeir starfa eftir svipaðri hugmyndafræði, eru vel mannaðir og hafa skilað góðu starfi undanfarin ár.

Annað sem mælti með því að þessir leikskólar tækju þátt í tilraunaverkefninu er að leikskólastjóri Öldukots hafði sagt upp störfum. Engum starfsmanni var sagt upp störfum. Þessi staðreynd skiptir sköpum þar sem grundvallarbreyta í breytingarferlinu er að allt starfsfólk sé sátt við ferlið, sem er samkvæmt öllum kennismiðum breytingafræða, langt og strangt.

Núna ætlið þið að höggva í það mikla og góða uppbyggingastarf sem unnið hefur verið á síðastliðnum þrjátíu árum í leikskólum borgarinnar fyrir túkall.

Í samrekstri leikskólanna sem ég stýri höfum við ekki enn orðið vitni að fjárhagslegum ávinningi. Staðreyndin er sú að starf leikskólastjóra er margþætt, til dæmis sjáum við um rekstur skólanna, faglega sýn og erum starfsmannastjórar. Þar sem ég stýri tveimur húsum þarf ég að vera til staðar í þeim báðum og í því ljósi minnkar viðvera mín um ca helming. Það þýðir að álagið eykst á millistjórnendum, og að ráða þarf starfsfólk í það hlutfall er uppá vantar! Því spyr ég: Erum við ekki að bíta í skottið á okkur?

Kæri Jón, við erum að vinna með „alls konar" manneskjur, traust er hugtak sem skiptir gríðarlega miklu máli í vinnu með fólki. Ég finn það svo sannarlega í öllum þeim breytingum sem ég er að stýra í þessum skrifuðu orðum hvað gott og traust fólk er mikill fengur. Þegar kennarar og starfsfólk er ánægt í starfi speglast það í þeim sem erfa landið, börnunum okkar!

Taktu eitt skref í einu því góðir hlutir gerast hægt.

 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Lík­hús

Líneik Anna Sævarsdóttir skrifar

Skoðun

Sundtískan

Anna Gunndís Guðmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×