Innlent

Jóni Gerald vísað út úr Bónus: Var ekki að njósna

Jón Gerald Sullenberger
Jón Gerald Sullenberger

Jóni Gerald Sullenberg-er athafnamanni, var vísað út úr verslun Bónuss á Korputorgi á þriðjudaginn.

„Ég veit ekkert af hverju það var. Ég var bara í Ilvu og ákvað að fara inn í Bónus og stóð þar í rólegheitunum. Þá kom ungur maður og bað mig vinsamlegast að yfirgefa búðina og ég varð að sjálfsögðu við því," segir Jón Gerald sem sjálfur hyggst opna lágvöruverðsverslunina Smartkaup á næstunni.

Jóhannes Jónsson, eigandi Bónuss, sagðist ekki hafa heyrt af þessu en telur ekki ótrúlegt að Jóni hafi verið vísað út miðað við hvernig hann hafi rætt um sig og sína í tengslum við Baugsmálið. „Ég hef heyrt af því að hann sé í njósnaferðum í Bónusbúðunum út af þessari búð sem hann er að opna og þá er ekki skrýtið að honum sé vísað á dyr," segir Jóhannes.

Jón Gerald þvertekur fyrir það hafa verið að njósna. „Ég var bara að ganga í gegnum búðina. Ég var búinn að vera þarna í fimm til tíu mínútur þegar mér var vísað út," segir Jón. Hann segist ekki hafa farið í Bónus síðan þetta gerðist en aðspurður segist hann að sjálfsögðu ætla að fara þangað í framtíðinni því öllum sé frjálst að fara inn í verslanir.

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, segir að það hafi orðið eitthvert orðaskak milli Jóns Geralds og starfsmanns hjá sér sem hafi verið á misskilningi byggt. „Jón Gerald er velkominn í okkar búðir, nú sem endranær," segir Guðmundir.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×