Íslenski boltinn

Jón Ragnar: Hélt að hann væri dáinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Ragnar Jónsson, leikmaður FH, varð vitni að því þegar stuðningsmaður FH féll niður úr stúkunni á Þórsvelli á Akureyri á sunnudag. Betur fór en á horfðist þegar stuðningsmaðurinn féll úr stúkunni niður í gryfju. Fallið var hátt og maðurinn féll á andlitið.

Stuðningsmaðurinn var að teygja sig í átt að Jóni Ragnari til að gefa honum „fimmu“ þegar hann rann yfir handriðið og féll til jarðar.

„Í mínum huga átti þetta aldrei að verða fimma því það var svo hátt upp til hans,“ sagði Jón Ragnar í samtali við Vísi í dag.

„En hann teygði sig alltof langt og fór í raun í kollhnís í loftinu áður en hann lendir á andlitinu,“ sagði hann.

Jón Ragnar vildi ekki gera mikið úr sínum þætti í þessu en neitar því ekki að hann hafi verið hálf bjargarlaus í þessum aðstæðum. „Ég spenntist allur upp og öskraði á hjálp. Meira gat ég ekki gert.“

„Ég hélt í smástund að hann væri bara dáinn. Þetta var bara eins og í bíómynd þar sem blóðið lak eftir jörðinni frá höfðinu,“ segir Jón Ragnar.

„En það róaði okkur að heyra fyrir leik að hann væri byrjaður að tala aftur og að hann væri með meðvitund. Það var skrýtið að gíra sig upp í leikinn og hann væri þarna rétt fyrir utan búningsklefann.“

„Menn voru þöglir í klefanum en reyndu bara að einbeita sér að leiknum af fremsta megni. Það var ekkert annað í stöðunni en það barst aldrei í tal að fresta leiknum eða neitt slíkt.“

„Sem betur fer fór betur en á horfðist. Við sendum honum allir okkar bestu batakveðjur. Við árituðum treyju fyrir hann og vonum að þetta sé í síðasta skipti sem stuðningsmaður nokkurs liðs á Íslandi slasast á þennan hátt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×