Innlent

Jón Gnarr bauð Degi fyrsta sætið á sameiginlegum lista

„Við Jón töluðum mest um þetta í mjög fámennum hópi,” sagði Dagur B. Eggertsson í Minni skoðun þegar hann var spurður út í hugmyndir Jóns Gnarr um sameiginlegan lista Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

„Þetta var eitt af því sem var nefnt,” bætti hann við en hugmynd Jóns var að Dagur myndi leiða slíkan lista. Ekkert varð af þessu og margir úr Besta flokknum gengu til liðs við Bjarta framtíð og bjóða fram undir merkjum þess flokks.

Sjálfur er Dagur oddviti Samfylkingarinnar í komandi sveitastjórnarkosningum og sá frambjóðandi sem flestir Reykvíkinga vilja sjá sem næsta borgarstjóra. Dagur segist ekki leyna því að hann sjái bæði mjög á eftir Jóni og Besta flokkinum.

„Ég hef auðvitað verið svo heppinn að vinna með honum í bráðum fjögur ár,” sagði Dagur en að hans sögn hefur hvergi borið skugga á samstarfið.

Samfylkingin fékk þungan skell í síðustu sveitastjórnarkosningum og Dagur segist hafa farið í samstarf við Besta flokkinn vegna kröfu Reykvíkinga um breytingar. Hann sér ekki eftir því og segir Jón Gnarr hafa verið mjög farsælan borgarstjóra, einlægan og heiðarlegan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×