Lífið

Íslenski bötlerinn

Elín Albertsdóttir skrifar
Hjónin í Borgarleikhúsinu. Kiddý er veitingastjóri og Jói bötler ætlar að kokka ofan í gesti.
Hjónin í Borgarleikhúsinu. Kiddý er veitingastjóri og Jói bötler ætlar að kokka ofan í gesti. Vísir/Stefán
Þeir sem horfðu á þættina Downton Abbey fylgdust með aðdáun með hinum ábúðarmikla butler, herra Carson. Hér á landi eru slíkir ráðsmenn ekki algengir en þó vissulega á Bessastöðum. Jóhann Gunnar Arnarsson, danskennari og bryti, starfaði sem ráðsmaður á Bessastöðum í tæp tíu ár og fékk viðurnefnið Jói bötler.

Jóhann Gunnar, eða Jói, hóf feril sem dansari þegar hann var barn að aldri hjá Heiðari Ástvaldssyni, Sigvalda og fleirum. Hann keppti í nokkrum Íslandsmeistaramótum og vegnaði vel í dansinum. Það varð til þess að honum bauðst hlutverk hjá Leikfélagi Akureyrar en Jói er alinn upp fyrir norðan.

Má þar nefna Emil í Kattholti, Fiðlarann á þakinu, Kysstu mig Kata og Tjútt og tregi eftir Valgeir Skagfjörð. Þá samdi hann dansa fyrir Leðurblökuna þegar Kolbrún Halldórsdóttir setti sýninguna upp á Akureyri.

Vísir/Stefán
Aftur í leikhús

Nú er Jói aftur kominn í leikhús. Nýjasti viðkomustaður hans er Borgarleikhúsið, þó ekki til að dansa og leika heldur útbúa veislubakka fyrir gesti hússins.

Undanfarin ár hefur aukist til mikilla muna að fólk, jafnvel hópar, komi í leikhúsið fyrir sýningu og fái sér léttan mat. Jói, sem starfaði sem bryti á varðskipinu Þór, ákvað að breyta til þegar fjölga þurfti í eldhúsi leikhússins og honum bauðst starfið. Hann fékk átta mánaða launalaust frí hjá Landhelgisgæslunni til að kokka fyrir leikhúsgesti.

Sjá einnig:„Þú ert eins og gaurinn í Something about Mary“

Eiginkona Jóa, Kristín Ólafsdóttir, Kiddý, er veitingastjóri Borgarleikhússins og þau eru ekki óvön því að starfa saman. Jói hlakkar mikið til nýja starfsins, enda segir hann að húsið iði af krafti og sköpun. Í fyrradag hélt Leikfélag Reykjavíkur einmitt upp á 120 ára afmæli.

Jóa langaði þó aldrei til að læra leiklist. „Pabbi minn heitinn lék mikið með áhugaleikfélaginu og báðar ömmur mínar. Það er mikil leiklist í ættinni. Ég vildi frekar dansa og hrista mig,“ segir Jói sem var enn of ungur þegar blómaskeið diskósins var og hét. „Ég elska tónlist og er alltaf með hana í kringum mig. Svo tek ég stundum sporin í eldhúsinu,“ segir hann og hlær.

Jói og Kiddý störfuðu á Bessastöðum í tæp tíu ár. Þau voru sæmd sérstakri þjónustuviðurkenningu fyrir framlag sitt.Gunnar G. Vigfússon
Örlögin ráðin í Eyjum

Frá því Jói dansaði í Tjútt og trega hefur margt drifið á daga hans. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akur­eyri og var búinn að ákveða að læra bæði að vera danskennari og hárgreiðslumaður. 

„Ég var kominn með samning í báðum þessum greinum en það reyndist svo mikið að gera í danskennslunni að ég fór aldrei í hárgreiðsluna,“ segir hann. Hann starfaði sem danskennari í Dansskóla Hermanns Ragnarssonar. Eftir stúdentsprófið fór Jói til Vestmannaeyja til að vinna á Kaffi Maríu. Það var örlagaríkt sumar því þar kynntist hann Kiddý. Sumarið eftir fór hann aftur til Vestmannaeyja en ári þar á eftir rak Jói sumarhótel á Núpi í Dýrafirði, aðeins 22 ára. Mataráhuginn kviknaði snemma og hefur alltaf fylgt honum þótt hann hafi ekki kosið að fara í matreiðslunám. 

„Ég hef eldað mat frá því ég man eftir mér. Pabbi var í Oddfellow og sem smápolli hjálpaði ég honum að smyrja snittur fyrir fundi. Ég ætlaði aldrei að vinna við matargerð en hún hefur samt alltaf fylgt mér í störfum mínum. Ég rak hótelið á Núpi í þrjú sumur en var þá boðið að taka að mér heilsárs­hótel á Flúðum. Þar vorum við hjónin í tvö ár,“ segir hann. „Kiddý er lærður þjónn, viðburðarstjóri og blómaskreytir sem nýttist vel á hótelinu. Síðan fluttum við aftur til Akureyrar þar sem ég hóf störf hjá hótel KEA. Svo datt okkur í hug að kaupa blómabúð Akur­eyrar og rákum verslunina í tvö ár,“ útskýrir hann. Þá verða enn á ný þáttaskil í lífi þeirra.

Þarna eru Kiddý og Jói búin að gera allt klárt fyrir veislu með indverska forsetanum í Hafnarhúsinu.GUNNAR G. VIGFÚSSON
Butler á Bessastöðum

Auglýst var eftir ráðsmanni á Bessastöðum og eftir miklar vangaveltur sóttu þau um starfið. „Nokkrir voru búnir að nefna það við okkur að sækja um þetta starf en blómabúðin gekk vel svo við vorum ekki alveg á því að breyta til. Við sóttum samt um á síðasta degi en áttum ekkert sérstaklega von á að fá starfið. En á Bessastaði fórum við árið 2002 og störfuðum þar í tæp 10 ár,“ segir Jói.

Ólafur Ragnar var kominn fram í annað kjörtímabil þegar Jói og Kiddý hófu störf á Bessastöðum og Dorrit var orðin húsfrú. „Þetta var rosalega spennandi tími hjá okkur en jafnframt erfiður og krefjandi. Nýr kafli hófst í lífi okkar á Bessastöðum, þetta var gríðarlega mikið og erilsamt starf. Ég var staðarhaldari og Kiddý ráðsmaður. Í upphafi starfaði með okkur Halldóra Pálsdóttir en hún hafði unnið á Bessastöðum frá árinu 1956 með fjórum forsetum. Hún var þvílíkur viskubrunnur og gat leiðbeint okkur með alls kyns hluti. Svo bjó hún yfir merkilegum sögum frá staðnum. Það er ábyrgðarmikið starf að stýra þjóðhöfðingjasetri en starfsmenn eru auðvitað bundnir trúnaði,“ segir Jói sem eldaði í smærri veislum á Bessastöðum en færustu matreiðslumeistarar voru kallaðir til þegar um stærri veislur var að ræða. 

„Ég var svo heppinn að vinna með þeim og ég lærði rosalega mikið. Í opinberum veislum vorum við Kiddý þó alltaf bæði frammi í salnum. Að fá alla þessa strauma og stefnur í eldhúsið frá þessum frábæru kokkum var meiriháttar. Ég bý enn að þeirri reynslu.“

Jói segir að vissulega séu hefðir og venjur breytilegar á Bessastöðum eftir því hvaða forseti situr þar. „Halldóra gat sagt okkur frá því hvernig breytingarnar gerðust með árunum. Sem dæmi þá bjuggu Ásgeir Ásgeirsson og Kristján Eldjárn á efri hæðinni í aðalhúsinu á Bessastöðum. Þegar Ólafur tók við embættinu var kominn sérstakur forsetabústaður. Það er mjög eftirminnilegur og skemmtilegur tími sem við áttum á Bessastöðum,“ segir Jói og enn var komið að breytingu í lífi hans þegar honum var boðin staða bryta á varðskipinu Þór.



Jóa er margt til lista lagt. Hann langaði að læra hárgreiðslu eftir stúdentspróf en úr því varð ekki. Hann hefur hins vegar greitt dóttur sinni, Margréti, sem er margfaldur meistari í dansi. Eins og sjá má ferst honum verkið vel úr hendi.
Á sjó

„Við eigum þrjár dætur, Kristrúnu sem nú er 26 ára, Katrínu, 19 ára og Margréti sem er að verða 18 ára. Þegar við hættum á Bessastöðum var það ekki síst þeirra vegna. Okkur langaði til að hafa meiri tíma fyrir þær. Þess má geta að yngsta dóttirin, Margrét, er mikill danssnillingur og margfaldur Íslandsmeistari í dansi. Hún dansar núna í Mamma Mia. Svo skemmtilega vill til að þegar Margrét fór í keppni greiddi Jói henni á einstakan hátt sem eftir var tekið.

Jói hafði aldrei fengist við sjómennsku þegar hann hóf störf hjá Landhelgisgæslunni. „Ég hafði farið með Herjólfi til Eyja en varð alltaf mjög sjóveikur. Það var samt gaman að prófa eitthvað nýtt og eiginlega forréttindi að starfa fyrir Gæsluna. Þetta er stofnun sem nýtur mikils trausts og er að gera mjög góða hluti. Fyrsta ferðin mín var frá Chile til Íslands og tók 30 daga. Langmest sigldum við þó innan landhelginnar. Það er mikið um alls konar æfingar um borð enda þurfa menn alltaf að vera til taks.“

Nú eru liðin fimm ár og Jói og Kiddý eru aftur farin að vinna saman. „Við erum samhent og eyðum öllum frístundum saman. Ég hlakka til að vinna aftur með Kiddý,“ segir hann. „Gestum sem komu á Njálu var boðið að kaupa kjötsúpu sem var mjög vinsælt, einnig hafa verið í boði snittu-, tapas- og ostabakkar sem eldhúsið hefur séð um og svo verður áfram. Hins vegar tökum við núna upp nýjan matseðil fyrir gesti sem vilja koma snemma og borða fyrir sýningu. Með því getur fólk slakað betur á og gert meira úr kvöldinu,“ segir Jói.

Jói að keppa í dansi á árum áður.
Butler í Bretlandi

Það er ekki úr vegi í lok samtals að spyrja Jóa um viðurnefnið.

„Þegar ég byrjaði á Bessastöðum fóru vinir mínir að kalla mig bötlerinn. Það festist við mig og Kiddý gaf mér númeraplötur á bílinn minn þar sem stendur bötler. Ég verð því áfram Jói bötler.“

En er það rétt að þau hafi fengið atvinnutilboð frá enskum herragarði um butler-stöðu?

„Það er rétt. Við fengum tölvupóst þar sem okkur var boðið að taka að okkur stórt setur, ég sem butler og Kiddý sem „house­keeper“ eða ráðskona. Þetta væri auðvitað frábært tækifæri fyrir okkur en við vorum samt ekki tilbúin til þess núna. Við eignuðumst fyrsta barnabarnið fyrir stuttu og tímum ekki að fara frá fjölskyldunni,“ segir hann.

„Það var virkilega spennandi að fá þetta tilboð enda höfum við alltaf verið með opinn hug gagnvart breytingum.“


Tengdar fréttir

Nauðsynlegt að nota tilfinninguna

Stangveiðisumarið 2016 er að baki og eflaust eiga margir bleikan fisk í sínum frysti. Jóhann Gunnar Arnarsson er bæði veiðimaður og bryti og flestum betri í að leiðbeina lesendum í matreiðslu á laxi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×