Skoðun

Íslensk málfræði og alþjóðleg tækifæri

Anton Karl Ingason skrifar
Enginn skortur er á neikvæðum fréttum um íslenska tungu. Lesskilningur og orðaforði virðist vera á niðurleið samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum, afþreyingarefni á ensku verður sífellt stærra hlutfall af menningarneyslu landsmanna, íslensk máltækni nær ekki að halda í við alþjóðlega þróun vegna fjárskorts og svo mætti lengi telja. Vandi tungumálsins er margþættur og flókinn og allar hliðar hans verðskulda umræðu. Hér verður þó aðeins fjallað um eitt atriði í þessari flóknu stöðu.

Eitt af því sem er mikilvægt fyrir málið er að til sé hópur sérfræðinga með þekkingu á íslenskri málfræði – og tengdum greinum eins og máltækni – og sá hópur endurnýjast ekki nema framhaldsskólanemar séu meðvitaðir um tækifæri á þessu sviði í háskólanámi. Ég heyrði um daginn af því að til væru framhaldsskólanemar á Íslandi sem hefðu áhuga á háskólanámi í málfræði en væru ragir við að hefja slíkt nám vegna ótta um að það takmarkaði möguleika þeirra á framtíðartengslum við útlönd í hnattvæddum heimi; íslenska væri í þeirra augum einhvers konar einangrað grúskfag á norðurhjara. Þennan misskilning er ástæða til að leiðrétta. Auðvitað hafa ekki allir áhuga á málfræði en það er sorglegt ef stúdentar sem hafa jafnvel eldspúandi áhuga á viðfangsefninu snúa sér annað vegna þess að málfræðingar eru ekki nógu duglegir að útskýra hvernig fagið er í raun og veru. Íslensk málfræði er rammalþjóðleg fræðigrein rétt eins og hvert annað viðfangsefni í rannsóknarháskóla eins og Háskóla Íslands.

Um hvað snýst málfræði?

Málfræðingar rannsaka og reyna að skýra eðli mannlegs máls. Þetta verkefni nálgast þeir frá ýmsum hliðum en oft beinast sjónir okkar að því hvað gerist þegar börn tileinka sér móðurmál sitt og hvers konar kunnátta verður til í mannshuganum þegar slík máltileinkun hefur átt sér stað. Sumir málfræðingar, eins og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor við HÍ, og Iris Edda Nowenstein, doktorsnemi við sama skóla, rannsaka máltöku barna milliliðalaust með því að vinna með yngstu málhöfunum og athuga hvernig orðaröð þeir nota, hvenær þeir nota nefnifall og hvenær þolfall, og svo mætti lengi telja. Stundum er lögð áhersla á það sem gerist þegar börn tileinka sér ekki nákvæmlega sömu málfræðilegu mynstur og foreldrarnir, þ.e.a.s. málbreytingar milli kynslóða. Slíkar rannsóknir tengjast máltöku barna nánum böndum því að eitthvað áhugavert hefur gerst í máltökunni ef ein kynslóð barna tekur t.d. upp á því að segja henni kitlar frekar en hana kitlar en slík málnotkun er stundum nefnd þágufallshneigð (þessi málbreyting hefur einnig verið nefnd þágufallssýki af þeim sem telja yngra tilbrigðið rangt eða vont mál). Margir málfræðingar leggja svo áherslu á að gera grein fyrir því hvers konar mynstur eru möguleg og ómöguleg í tungumálum heimsins.

Þessi dæmi um viðfangsefni í málfræði eru til marks um að rannsóknarspurningar í faginu fjalla mjög oft um eðli mannlegs máls frekar en afmörkuð fyrirbæri í einstökum tungumálum. Þrátt fyrir að málfræðikenningar séu oft settar fram með hliðsjón af einu tungumáli þá breytast þær gjarnan eða eru jafnvel afsannaðar þegar þær eru bornar að staðreyndum í öðrum málum í framhaldinu. Íslenska hefur einmitt margvíslega eiginleika sem skipta máli í alþjóðlegum kenningum og slíkir eiginleikar eru ekki léttvægir. Ef til er kenning um að tiltekið mynstur samrýmist ekki málstöðvum heilans en mynstrið finnst svo í íslensku þá verður að endurskoða kenninguna.

Svona tilvik, þar sem íslenska er í aðalhlutverki, hafa komið nógu oft upp til þess að fólk sem stundar háskólanám í málfræði í útlöndum getur búist við því að rekast reglulega á dæmi úr íslensku í kennslubókum og fræðigreinum sem eru til umfjöllunar. Málfræðingar sem starfa á Íslandi eða í nánum tengslum við Ísland hafa einstakan aðgang að þessu máli og mikilvægur þáttur í þeirra starfi er að eiga í samskiptum við fræðimenn um allan heim bæði í ræðu og riti.

Þegar hér er komið sögu á að vera orðið allljóst að íslensk málfræði fellur ágætlega að framtíðarsýn stúdents sem fýsir að fá alþjóðlega vísindastrauma beint í æð. Snúum okkur samt að nokkrum áþreifanlegum dæmum til að skýra þetta frekar.

Alþjóðleg tækifæri fyrir háskólanema í íslenskri málfræði

Því var haldið fram hér að ofan að íslenska skipti oft máli í alþjóðlegri málfræði en umræða um slíkt verður markvissari ef við skoðum tölur sem gefa vísbendingu um þetta. Leitarvélin Google Scholar er nokkurs konar Google fyrir fræðigreinar þar sem meðal annars kemur fram hversu oft hefur verið vísað í tiltekna fræðigrein í öðrum greinum. Þar er fróðlegt að slá inn nöfn á íslenskum setningafræðingum eins og Höskuldi Þráinssyni og Halldóri Ármanni Sigurðssyni. Þannig má finna fræðileg skrif eftir þessa menn og þegar þetta er skrifað hefur verið vitnað 3.985 sinnum í skrif þess fyrrnefnda og 3.578 sinnum í hinn síðarnefnda. Það sem er áhugavert fyrir hinn alþjóðlega þenkjandi og upprennandi málfræðistúdent er að megináherslan í þessum skrifum er á fyrirbæri í íslenskri tungu en nánast allar þessar tilvitnanir eru frá erlendum fræðimönnum sem hafa íslensku ekki að móðurmáli. Uppgötvanir sem tengjast einhverju eins og íslensku þágufalli geta þannig vakið athygli erlendis og þær gera það oft.

Alþjóðatækifæri hins áhugasama málfræðistúdents snúast ekki aðeins um það að geta skrifað eitthvað sem verður lesið í útlöndum heldur opnar málfræðinám í Háskóla Íslands einnig margar leiðir til frekara náms í útlöndum. Einhver kann að halda að fræðimenn sem fást við íslenska málfræði hafi yfirleitt menntað sig á Íslandi og auðvitað eru dæmi um slíkt. Þeir sem hafa sótt námskeið í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands komast þó fljótt að því að flestir kennararnir stunduðu sitt framhaldsnám í öðrum löndum þó að þeir hafi yfirleitt hafið háskólanám sitt á Íslandi enda er málfræði jú alþjóðleg fræðigrein. Þeir sem hafa kennt málfræðinámskeið á síðustu árum í HÍ lærðu sína málfræði m.a. í Harvard, Cornell, UCLA, University of Massachusetts, University of Pennsylvania, Universität Freiburg og University of Edinburgh. Þetta veldur því að það þarf ekki að fara lengra en í Árnagarð við Suðurgötu til að kynnast fjölbreytilegum hugmyndum úr alþjóðlegri málfræði.

Nemendur sem hafa útskrifast úr grunnnámi og meistaranámi í málfræði við HÍ á síðustu árum hafa líka farið víða eftir sína útskrift hér heima. Frá árinu 2010 árum hafa íslenskir málfræðistúdentar m.a. stundað doktorsnám í málfræði við University of British Columbia, Cornell, University of Connecticut, University of Maryland, University of Pennsylvania og Ghent University. Þessi menntaútrás íslenskra málfræðinga stafar auðvitað að mestu leyti af því að fræðilegt viðfangsefni á borð við heilann í barni sem er að læra að tala er svo spennandi að það getur vakið óstöðvandi þekkingargreddu hjá stúdent þegar hann, hún eða hán hellir sér út í fræðin. Einnig skiptir þó máli að þar sem íslenska er mikilvægt mál í alþjóðlegri málfræði eru íslenskir málfræðistúdentar að einhverju leyti eftirsóttir í útlöndum. Slík áhrif er erfitt að mæla nákvæmlega en þó má nefna sem dæmi að undirritaður hefur átt í persónulegum samskiptum við kennara í málfræðideildum háskóla beggja vegna Atlantshafs á síðustu vikum þar sem ákaft var sóst eftir umsóknum um framhaldsnám í málfræði frá stúdentum sem hafa íslensku að móðurmáli.

Það er líka vert að geta þess að stúdentar í íslenskri málfræði fá reglulega ýmis spennandi tækifæri til að láta að sér kveða í rannsóknum meðan á námi þeirra í Háskóla Íslands stendur. Meistaranemarnir Elín Þórsdóttir, Lilja Björk Stefánsdóttir og Dagbjört Guðmundsóttir eru til dæmis um þessar mundir mikilvægir þátttakendur í stóru alþjóðlegu verkefni sem rannsakar áhrifin af stafrænu málsambýli íslensku og ensku. Þær þrjár eru einnig allar að vinna að eigin rannsóknum sem nota fullkominn máltæknihugbúnað til að greina breytingar á íslenskri setningafræði frá kynslóð til kynslóðar. Sumir af þeim meistaranemum sem fást við íslenska málfræði leggja svo sérstaka áherslu á máltækni í sínu námi en máltækni er sérstök námsbraut. Stúdentar í því námi, t.d. Tinna Frímann Jökulsdóttir, Steinunn Valbjörnsdóttir, Kristján Rúnarsson og Starkaður Barkarson, blanda saman námskeiðum um málfræði, forritun, gervigreind og ýmislegt fleira í sínu námi. Máltækni er stór alþjóðlegur þekkingariðnaður sem veltir gríðarstórum upphæðum og þróun á íslenskri máltækni er ein af forsendum þess að íslenska verði gjaldgeng í tæknisamfélagi framtíðarinnar. Ekki þarf að hafa mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér vægi máltæknimenntunar á komandi árum, hvort sem er hér heima eða á alþjóðlegum vettvangi.

Íslensk tunga þarf sérfræðinga

Það er sótt að íslenskri tungu úr ýmsum áttum og vandi tungunnar er svo margslunginn að viðfangsefnið í þessum skrifum er aðeins eitt lítið brot af flókinni heildarmynd. Öruggt verður þó að teljast að ýmis verkefni sem bíða okkar krefjast þess að hægt verði að leita til sérfræðinga sem hafa góða þekkingu á íslenskri málfræði, máltækni og tengdum viðfangsefnum. Ekki fer á milli mála að til eru stúdentar sem hafa áhuga á málfræði en heyrst hefur að sumir hiki við að leggja fyrir sig nám á þessu sviði vegna óljósra hugmynda um að slíkt loki dyrum að alþjóðasamfélaginu. Vonandi munu einhverjir sem lesa þetta átta sig á því að svo er ekki. Þvert á móti eru fjölbreytileg tækifæri í íslenskri málfræði sem teygja anga sína út um allan heim. Íslensk tunga þarf á því að halda að sérfræðingar framtíðarinnar átti sig á þessu.




Skoðun

Sjá meira


×