Innlent

Ísland á að draga úr losun um þriðjung

Ingvar Haraldsson skrifar
Draga skal úr losun Ísland þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020.
Draga skal úr losun Ísland þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020. Nordicphotos/AFP
Ísland þarf að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 31 prósent fyrir árið 2020 að undanskilinni losun frá stóriðju.

Það er hluti af samkomulagi sem samninganefndir Íslands og Evrópusambandsins undirrituðu í gær um sameiginleg markmið í loftslagsmálum. Samkomulagið er hluti af Kýótó-bókuninni.

Losun gróðurhúsalofttegunda að undanskilinni stóriðju var 2,78 milljónir tonna árið 2012. Árið 2020 á losunin að vera 1,98 milljónir tonna. Því þarf að draga úr losun um tæplega þriðjung.

Stefnt er að því að helmingi markmiðsins verði náð með gróðursetningu trjáa. Hinum helmingnum á að ná með minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda og hugsanlega með kaupum á losunarheimildum.

Sá hluti mengunarkerfisins sem nær til stóriðju er á sameiginlegri ábyrgð Íslands og allra þjóða Evrópusambandsins. Í þeim hluta ganga losunarkvótar kaupum og sölum. Markmið þess hluta er að draga úr mengun um 20 prósent milli 1990 og 2020. Þessi hluti samkomulagsins tekur til 40 prósenta af losun Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×